Selfoss samdi á dögunum við þrjá leikmenn fyrir komandi tímabil. Sigmar Jóhann Bjarnason framlengdi samningi sínum við félagið, en hann hefur verið með liðinu síðustu tvö tímabil.
Þá eru Óli Gunnar Gestsson og Ísar Freyr Jónasson báðir komnir með leikheimild með félaginu. Báðir eru þeir að upplagi úr KR, en Óli kemur þó frá Hamri, þar sem hann var á síðasta tímabili.
Deildarkeppnin hjá Selfoss hefst þann 26. næstkomandi með nágrannaslag gegn Hamri í Hveragerði.
Tilkynning:
Fyrstan skal telja Sigmar Jóhann Bjarnason sem tekur nú þriðja árið í herbúðum Selfoss. Sigmar er leikmaður af þeirri gerð sem öll lið þurfa að hafa í sínum leikmannahópi, ósérhlífinn og baráttuglaður stríðsmaður. Hann er ’99 árgerð en hefur verið ákveðin andleg kjölfesta í liðinu, þrátt fyrir ungan aldur, og er þeim meginkosti búinn að geta leyst nánast alla leikmenn af hólmi, hvaða stöðu á vellinum sem um ræðir. Því er afar ánægjulegt að hann hafi ákveðið að standa áfram í stafni.
Óli Gunnar Gestsson er 18 ára framherji, uppalinn í KR þar sem hann lék alla yngri flokkana og á einnig leiki með meistaraflokki Vesturbæjarveldisins. Á síðasta ári hleypti hann heimdraganum og spilaði með Hamri í 1. deild. Tímabilið var þó vonbrigði vegna meiðsla framan af en í 10 leikjum í úrslitakeppninni í vor skilaði hann að meðaltali 5,5 stigum, 6 fráköstum og 10 framlagspunktum á 18 spiluðum mínútum. Óli hefur því aflað sér nokkurrar reynslu og fær í vetur tækifæri til að bæta enn í sarpinn og væntum við mikils af honum.
Sá þriðji er Ísar Freyr Jónasson, bakvörður, nýorðinn 19 ára. Ísar er KR-ingur að upplagi sem æfði einnig frjálsar með ÍR áður en hann byrjaði í körfunni. Á síðasta ári æfði hann með unglinga- og meistaraflokki KR og spilaði með KV í 2. deild. Hann stefnir á að reyna við háskólaboltann í USA og vill undirbúa sig sem best með því að æfa og spila á Selfossi, þar sem einmitt er gott umhverfi fyrir unga leikmenn með slík framtíðarplön.