Stjarnan lagði Hamar/Þór í Hveragerði í kvöld í 14. umferð Bónus deildar kvenna.
Eftir leikinn er Stjarnan í 6. sæti deildarinnar með 12 stig á meðan Hamar/Þór er einum sigurleik fyrir aftan í 7. til 8. sætinu með 10 stig.
Liðin skiptust á snöggum áhlaupum í upphafi leiks og var það Stjarnan sem var körfu á undan að fyrsta leikhluta loknum, 25-27. Heimakonur ná svo góðu áhlaupi í öðrum leikhlutanum þar sem þær fara mest 9 stigum á undan, en missa það niður áður en liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 47-51.
Leikurinn er svo jafn og spennandi í upphafi seinni hálfleiksins og varla má sjá á milli liðanna eftir þrjá leikhluta, 67-67. Í lokaleikhlutanum ná gestirnir loks ágætis tökum á leiknum, leiða allt til enda og vinna að lokum með 10 stigum, 77-87.
Atkvæðamest heimakvenna í leiknum var Abby Beeman með 25 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar. Henni næst var Anna Soffía Lárusdóttir með 16 stig.
Fyrir Stjörnuna var það Denia Davis Stewart sem dró vagninn með 26 stigum og 21 frákasti. Þá bætti Ana Clara Paz við 22 stigum og 6 fráköstum.