Stjarnan vann í kvöld framlengdan spennusigur á Njarðvík í Ljónagryfjunni 81-87. Garðbæingar gerðu vel að koma leiknum í framlengingu og þar tóku þær við stýrinu og kláruðu verkið í nokkuð hörðum leik. Kolbrún Ármannsdóttir var frábær í kvöld með 24 stig og 5 fráköst í liði Stjörnunnar en Tynice Martin var stigahæst hjá Njarðvíkigum með 21 stig og 8 fráköst.
Snöggsoðið
Stjarnan leiddi 22-27 eftir fyrsta leikhluta og 37-45 í hálfleik. Pressa gestanna reyndist heimakonum erfið enda mikil og góð orka í Garðbæingum. Viso lokaði svo þriðja leikhluta með lygilegum þrist nánast frá miðju 64-60 fyrir Njarðvík sem unnu þriðja leikhluta 27-15. Stjarnan lét ekki skilja sig eftir og Trzeciak jafnaði leikinn 75-75 þegar brotið var á henni í þrist. Framlenging raunin.
Í framlengingunni voru Garðbæingar töluvert sprækari. Útslagið gerði svo Kolbrún með þrist þegar 1.42 mín. voru eftir af leiknum og kom Stjörnunni í 77-85. Lokatölur 81-87 eins og áður greinir.
Kolbrún og Ísold
Hér eru á ferðinni einstaklega efnilegir og spennandi leikmenn. Á sínu fyrsta ári í úrvalsdeild en spila eins og herforingjar. Ísold þurfti frá að hverfa í þriðja leikhluta vegan hnjasks en kom aftur inn í leikinn og kláraði vel. Kolbrún dró þó vagninn og fórst það vel úr hendi að reyna að dekka Tynice Martin í liði Njarðvíkinga. Þessir tveir leikmenn hafa borið höfuð og herðar yfir margan leikmanninn í yngri flokkum síðustu árin og nú er röðin komin að þeim að spreyta sig í úrvalsdeild, til þessa virðist þeim líka áksorunin nokkuð vel.
Þungur baggi
Emilie Hesseldal fór meidd af velli í lok þriðja leikhluta og kom ekki meira við sögu í leiknum. Hún stimplaði sig þó út með 14 stig og 12 fráköst á 21 mínútu. Njarðvíkingar léku einnig án Jönu Falsdóttur sem var í leyfi frá leik kvöldsins.
Lokaspretturinn
Stjarnan gerði vel að pressa á Njarðvíkinga í fjarveru Jönu Falsdóttur. Úthaldið var einnig fínt hjá Garðbæingum sem uppskáru nokkur góð stig og nokkra góða bolta með elju sinni í pressunni.
Næst á dagskrá
Njarðvíkingar mæta Fjölni á útivelli í næstu umferð og þá mæta þær fyrrum liðsfélaga sínum Raquel Laneiro sem lék með Njarðvíkingum á síðasta tímabili. Stjarnan að sama skapi fær Breiðablik í heimsókn þann 31. október.