spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaSeiglusigur Njarðvíkur í fyrsta leik undanúrslita

Seiglusigur Njarðvíkur í fyrsta leik undanúrslita

Njarðvík lagði Grindavík í Smáranum í kvöld í fyrsta leik undanúrslitaeinvígis liðanna í Subway deild kvenna, 79-83. Njarðvík því komnar með yfirhöndina 1-0, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sig áfram í úrslitin.

Það voru gestirnir úr Njarðvík sem hófu leik kvöldsins betur og leiða þær með 7 stigum eftir fyrsta leikhluta, 16-23. Undir lok fyrri hálfleiksins gerir Grindavík vel að halda leiknum jöfnum og er munurinn aðeins 4 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 35-39. Rétt fyrir lok hálfleiksins missti Njarðvík einn lykilleikmanna sinna Jönu Falsdóttur útaf eftir höfuðhögg, en hún tók ekki frekari þátt í leiknum.

Stigahæst heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Eve Braslis með 13 stig á meðan að Selena Lott var komin með 15 stig fyrir Njarðvík.

Leikurinn helst nokkuð jafn í upphafi seinni hálfleiksins og skiptast liðin í nokkur skipti á forystunni í þriðja fjórðung. Njarðvík þó enn með nauma forystu fyrir lokaleikhlutann, 56-61. Grindavík nær góðum tökum á leiknum í upphafi fjórða leikhlutans, þar sem forysta þeirra fer mest í 9 stig. Þegar 4 mínútur eru eftir fær besti leikmaður þeirra Danielle Rodriguez sína fimmtu villu og nær Njarðvík í framhaldi að ganga á lagið, minnka muninn, komast yfir og halda út 4 stiga sigur, 79-83.

Atkvæðamestar fyrir Grindavík í leiknum voru Danielle Rodriguez með 28 stig, 6 fráköst, 4 stoðsendingar og Eve Braslis með 18 stig og 9 fráköst.

Fyrir Njarðvík var það Selena Lott sem dró vagninn með 30 stigum, 7 fráköstum, 11 stoðsendingum og 3 stolnum boltum. Henni næst var Ena Viso með 18 stig og 7 fráköst.

Annar leikur liðanna er komandi fimmtudag 2. maí kl. 19:15 í Ljónagryfjunni.

Tölfræði leiks

Viðtöl birt upphaflega á vef Víkurfrétta.

Fréttir
- Auglýsing -