spot_img
HomeFréttirSeiglusigur drengjanna í fyrsta leik Norðurlandamótsins

Seiglusigur drengjanna í fyrsta leik Norðurlandamótsins

Undir 18 ára drengjalið Íslands vann Eistland í dag í fyrsta leik sínum á Norðurlandamótinu í Kisakallio í Finnlandi, 68-80.

Gangur leiks

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað. Eistland var skrefinu á undan á upphafsmínútunum, en undir lok þess fyrsta nær Ísland ágætisáhlaupi. Staðan 18-17 eftir fyrsta. Undir lok fyrri hálfleiksins halda liðin svo áfram að skiptast á áhlaupum, en þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er staðan 35-38 Íslandi í vil.

Laust eftir að seinni hálfleikurinn er farinn af stað þarf Ólafur Ingi Styrmisson að yfirgefa völlinn vegna támeiðsla, en hann hafði verið besti leikmaður Íslands fram að því með 12 stig og 6 fráköst á aðeins rúmum 12 mínútum spiluðum. Ísland rétt heldur þó í forystuna í þriðja leikhlutanum, eru stigi yfir fyrir lokaleikhlutann, 57-58.

Þann fjórða byrjar Eistland á sterku 7-0 áhlaupi. Ísland svarar því þó vel og sigla aftur framúr. Ná svo að loka leiknum með nokkuð öruggum 12 stiga sigri, 68-80.

Kjarninn

Íslensku strákarnir gerðu vel í dag að klára leikinn þrátt fyrir nokkur álitleg áhlaup andstæðinganna. Varnarleikurinn þeirra var á löngum köflum virkilega góður, frákasta boltann vel og gefa ekki mörg tækifæri á annarar tilraunar stigum. Þá stigu þeir vel upp eftir að Ólafur Ingi yfirgaf húsið, en hann hafði verið potturinn og pannan í sóknarleiknum þeirra allan fyrri hálfleikinn. Líkt og hjá stúlkunum sem einnig unnu sinn leik gegn Eistlandi, má allt eins búast við sterkari andstæðingum í Finnlandi á morgun.

Tölfræðin lýgur ekki

Ísland vann frákastabaráttu leiksins. Tóku 54 á móti aðeins 43 hjá Eistlandi.

Atkvæðamestir

Róbert Sean Birmingham var atkvæðamestur í liði Íslands eftir að Ólafur Ingi hafði lokið leik. Róbert skilaði 17 stigum og 3 fráköstum. Þá bætti Almar Orri Atlason við 13 stigum, 8 fráköstum og 4 stoðsendingum.

Tölfræði leiks

Myndasafn

https://www.youtube.com/watch?v=JqnwdPJPngE

Fréttir
- Auglýsing -