Aþena hafði betur gegn Val í kvöld í lokaleik 6. umferðar Bónus deildar kvenna, 70-64. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum í 7.-10. sæti deildarinnar með tvo sigra líkt og Þór Akureyri og Stjarnan.
Leikurinn var nokkuð jafn á upphafsmínútunum, en eftir fyrsta leikhluta var Valur skrefinu á undan, 20-23. Í öðrum leikhlutanum taka heimakonur öll völd á vellinum og snúa taflinu sér í vil. Ná mest 13 stiga forystu undir lok fyrri hálfleiksins, en eru átta stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 45-37.
Nokkuð jafnræði er á liðunum í upphafi seinni hálfleiksins, en heimakonur gera vel að halda í fenginn hlut og eru enn níu stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 59-50. Valskonur gera heiðarlega tilraun til þess að komast aftur yfir í fjórða leikhlutanum og ná í nokkur skipti að komast ansi nálægt. Þær ná þó ekki að jafna leikinn og er það að lokum Aþena sem siglir í höfn virkilega sterkum sex stiga sigri, 70-64.
Atkvæðamestar í lið Aþenu í leiknum voru Barbara Ola Zienieweska með 16 stig, 3 fráköst, 3 stoðsendingar og Lynn Aniquel Peters með 12 stig og 3 fráköst.
Fyrir Val var það Alyssa Marie Cerino sem dró vagninn með 27 stig og 6 fráköst. Henni næst var Jiselle Elizabeth Valentine Thomas með 16 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar.
Bæði lið eiga leik næst komandi miðvikudag 20. nóvember, þá mætir Aþena liði Þórs á Akureyri og Valur fær Stjörnuna í heimsókn.