spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaSeigla hjá Val: Stöngin út hjá Njarðvík

Seigla hjá Val: Stöngin út hjá Njarðvík

Valur sótti tvö mikilvæg stig í Ljónagryfjuna í kvöld með 74-77 sigri á Njarðvík. Lokaspretturinn var æsispennandi en tilraunir Njarðvíkinga voru „stöngin út“ þegar mest á reyndi. Kiana Johnson fór mikinn hjá Val með 29 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar en hjá Njarðvíkingum var Raquel Laneiro stigahæst með 22 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar.

Einhver þefur af úrslitakeppninni var á sveimi um Ljónagryfjuna í kvöld, leikmenn fengu á köflum að spila nokk stífar en öllu jöfnu í deildarkeppninni til þessa. Fyrir vikið varð dágóð glíma í leiknum sem var góð skemmtun fyrir áhorfendur.

Njarðvík leiddi 20-18 eftir fyrsta leikhluta en Valskonur voru mun sprækari í öðrum leikhluta og foru inn í leikhlé með 8 stiga forskot, 34-42. Raquel var með 11 stig hjá Njarðvík í hálfleik en Kiana 13 hjá Val.

Njarðvíkingar opnuðu þriðja leikhluta með látum á 10-0 spretti og komust í 44-42 áður en Valskonur tóku við sér. Gestirnir af Hlíðarenda létu áhlaup Njarðvíkinga ekki slá sig út af laginu og náðu forystunni á ný og leiddu 54-60 fyrir fjórða leikhluta.

Í fjórða gerði Valur vel að halda forystunni en það verður seint sagt að Njarðvíkingar hafi farið vel með færin sín. Dýr sniðskot við körfuna ekki að detta og á ögurstundum voru heimakonur að grýta boltanum frá sér, rándýrt. Eins og áður segir, stöngin út en að sama skapi var það sterk liðsvörn Vals sem var grunnur þeirra að sigri kvöldsins.

Valur í bullandi baráttu um deildarmeistaratitilinn og mætir Breiðablik í næstu umferð en Njarðvíkingar mæta Grindavík í slag tveggja liða sem eru að berjast um síðasta sætið í úrslitakeppninni.

Gott innlegg

Eydís Eva Þórisdóttir var hvergi bangin í sínum innkomum fyrir Val í kvöld, setti tvo stóra og mikilvæga þrista í síðari hálfleik sem voru mikilvægir í að halda Val í forystunni.

Bekkurinn

Valskonur fengu 16 stig af bekknum í kvöld en Njarðvíkingar aðeins 3.

Deildarmeistaratitillinn og úrslitakeppnin

Eftir kvöldið munar aðeins fjórum stigum á Njarðvík og Grindavík í baráttunni um síðasta sætið í úrslitakeppninni. Viðureign þeirra í næstu umferð ætti því að verða Suðurnesjaglíma af bestu gerð. Valskonur að sama skapi aðeins tveimur stigum frá toppi deildarinnar á eftir Keflavík og baráttan um toppsætið því æsispennandi næstu umferðir.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -