Úrslitaserían um WNBA meistaratitilinn er hafin en þar mætast Seattle Storm og Atlanta Dream. Seattle leiðir 2-0 eftir tvo jafna leiki. Fyrri leikurinn fór 79-77 og í nótt vann Seattle öðru sinni þar sem lokatölur voru 87-84. Nú færist einvígið yfir til Atlanta þar sem Dream konurnar eiga heimavöllinn næstu tvo leiki. Seattle verður samt meistari með næsta sigri því aðeins þrjá sigra þarf til að vinna.
Á leið sinni í úrslit hafði Seattle betur gegn Los Angeles Sparks 2-0. Næsta fórnarlamb var svo Phoenix Mercury sem einnig lá 2-0 og Seattle leiðir 2-0 gegn Atlanta svo liðið hefur enn ekki tapað leik í úrslitakeppni WNBA deildinnar. Reyndar tapaði liðið aðeins sex deildarleikjum og vann 28.
Á leið sinni í úrslit skellti Atlanta Washington Mystics 2-0. Í næstu umferð mættust Atlanta og New York Liberty og fór sú rimma einnig 2-0 Atlanta í vil. Dream konur verða að næla sér í sigur í næsta leik í von um að eiga möguleika á því að jafna einvígið en komi til oddaleiks í seríunni fer hann fram á heimavelli Seattle.
Lauren Jackson var stigahæst í liði Seattle í nótt með 26 stig en tvær voru jafnar með 21 stig í liði Atlanta en það voru þær Angel McCoughtry og Iziane Castro Marques.
Ljósmynd/ Lauren Jackson hefur farið mikinn í sumar með Seattle Storm en hún er með 20,5 stig og 8,3 fráköst að meðaltali í leik.