Topplið Hauka hefur þétt raðirnar til muna því Chelsie Schweers sem hóf tímabilið hjá Stjörnunni er kominn yfir til Hafnfirðinga. Stjarnan lét Schweers fara á dögunum en þá var hún stigahæsti leikmaður Domino´s-deildar kvenna.
Nokkuð ljóst er að topplið Hauka er að fá ansi sterka viðbót og sagði Andri Þór Kristinsson einn þjálfara liðsins að þessi ráðning myndi auka enn frekar á mikla keppni á æfingum Haukaliðsins.
„Við fengum tækifæri til að styrkja liðið okkar og ákváðum að gera það. Þetta gekk hratt fyrir sig. Chelsie hafði áhuga á að koma og við vissum að hún væri öflug keppnismanneskja og að því leiti passaði vel í okkar hóp. Við erum topplið deildarinnar og náðum þeim árangri án erlends leikmanns og við erum stollt af því. Við trúum að við munum ná ennþá lengra með þessari viðbót og geta sett markið enn hærra þegar að spilamennsku liðsins kemur. Keppnin á æfingunum okkar hefur verið rosaleg og gæðin á stundum mikil en þessi ráðning eykur á það og á eftir að styrkja þann afrekskúltur sem við við viljum að einkenni félagið okkar,“ sagði Andri í samtali við Karfan.is áðan.