Keflavík lagði Njarðvík nokkuð örugglega í kvöld í þriðja leik liðanna í úrslitum Subway deildar kvenna. Með sigrinum náði Keflavík að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í 17. skipti síðan þær unnu hann fyrst árið 1988. Með Íslandsmeistaratitlinum náði Keflavík að loka hinu fullkomna tímabili sínu, en áður höfðu þær unnið bæði deildar- og bikarmeistaratitil.
Karfan spjallaði við Söru Rún Hinriksdóttur leikmann Keflavíkur eftir að titillinn var í höfn í Blue höllinni. Sara Rún var að leik loknum verðlaunuð fyrir að hafa verið verðmætasti leikmaður lokaúrslita, en í lokaleiknum skilaði hún 22 stigum á 8 af 12 skotnýtingu og 4 fráköstum.