spot_img
HomeFréttirSanngjarn sigur Snæfells að Hlíðarenda

Sanngjarn sigur Snæfells að Hlíðarenda

Snæfell tryggði sig inn í 16 liða úrslit á mánudagskvöld, Hannes Birgir Hjálmarsson og Torfi Magnússon voru á staðnum og sendu myndir og umfjöllun strax í leikslok. Karfan.is beðst velvirðingar á því hversu seint þessi umfjöllun kemur inn, betra er þó seint en aldrei sagði einhver.
Jafnræði var með liðinum framan af og frekar lítið skorað, Snæfell var alltaf aðeins á undan. Jafnt var 11 þegar 3:45mín. voru eftir en þær mínútur sem eftir var var Vaslmönnum fyrirmunað að skora og Snæfellingar gengu á lagið og skoruðu 12 stig gegn 2 Valsmanna og lauk fyrsta leikhluta með rosa troðslu frá Hankins-Cole og 10 stiga forskoti Snæfelling 13-23.
 
Annar leikhluti byrjaði á sama hátt og fyrsta lauk með rosatroðslu frá Hankins-Cole. Valsmenn náðu ekki að minnka muninn mikið og Snæfell var með 9-12 stiga forskot fram að 6. mínútu þegar Birgir Björn Pétursson skoraði úr teignum og minnkaði muninn í 6 stig og leit út fyrir að Valsmenn væru að komast inn í leikinn á ný. Snæfell náði alltaf að vera aðeins á undan í stigaskori og náðu að halda um 10 stiga forskoti út leikhlutann og líkt og í fyrsta leikhluta átti Hankins-Cole lokakörfuna í fyrri hálfleik og staðan 32-44. Snæfellingar áttu alltaf svar við áhlaupi Valsmanna, Nonni Mæju átti stórgóðan leik í fyrri hálfleik og var kominn með 18 stig og Hankins-Cole 16 stig fyrir Snæfell. Hjá Val bar einna mest á Garrison Johnson sem skoraði 10 stig í hálfleiknum.
 
Þriðji leikhluti spilaðist svipað og annar leikhluti, Snæfell alltaf í bílstjórasætinu og þrátt fyrir ágætar tilraunir Valsmanna tókst þeim aldrei að ná Snæfellingum sem svöruðu öllum áhlaupum Valsmanna og voru yfir 53-66 fyrir lokafjórðunginn. Garrison Johnson fór fyrir Valsliðinu sem virtist fipast við varnarleik Snæfellinga og áttu leikmenn Vals það til að ætla sér að gera hlutina upp á egin spítur sem kann ekki góðri lukku að stýra í þessari göfugu liðsíþrótt sem körfuknattleikurinn er.
 
Meira af einspili frá leikmönnum Vals verður til þess að Snæfell nær mesta forystu í leiknum eftir um 3 mínútur í fjórða leikhluta, 56:77 og ljóst að Snæfell kemst áfram í 16 liða úrslit Powerade bikarkeppninnar. Allir leikmenn beggja liða fengu að taka þátt í leiknum sem varð því miður aldrei spennandi en Snæfellingar reyndust vera númeri of stórir fyrir Valsliðið að þessu sinni.
 
Jón Ólafur Jónsson átti stóran þátt í sigri Snæfellinga og skoraði alls 33 stig, þar af 7 þrista. Hankins-Cole (22 stig) og Sheldon Hall (16 stig) áttu einnig fínan leik og troðslur þess fyrrnefnda settu skemmtilegan svip á leikinn. Valsliðið datt í að einstaklingarnir urðu liðsheildinni sterkari og hökti sóknarleikurinn því á stórum köflum í leiknum hjá liðinu. Garrison Johnson gerði 24 stig, Igor Tratnik gerði 17 stig og tók 17 fráköst. Birgir Björn Pétursson tók 15 fráköst og Ragnar Gylfason skoraði 11 stig þar af 3/4 í þristum og er mesta furða að hann fái ekki fleiri tækifæri til að skjóta, en til þess verða liðsfélagar hans að leita meira til hans. Sanngjarn sigur Snæfels varð staðreynd að Hlíðarenda og Hólmarar komnir í 16 liða úrslit þar sem þeir mæta Stjörnunni á útivelli.
 
 
Mynd með frétt/ Torfi Benedikt Blöndal sækir að körfu Snæfells í leiknum
 
Umfjöllun/ Hannes Birgir Hjálmarsson  
Fréttir
- Auglýsing -