spot_img
HomeFréttirSannfærandi sigur Skallanna á Sauðárkróki

Sannfærandi sigur Skallanna á Sauðárkróki

Skallgrímur tók frumkvæðið strax í fyrsta leikhluta og náðu góðri forystu sem þeir létu aldrei af hendi og sigldu að lokum öruggum sigri heim í Borgarfjörðinn, lokatölur urðu 72 – 85.
Eins og áður segir voru gestirnir betri nánast frá fyrstu sekúndu. Þeir virtust hafa góða stjórn á leiknum í fyrsta leikhluta og um miðjan leikhlutann fór að skilja á milli liðanna og staðan að honum loknum 19 – 28, þar sem 10 af stigum heimamanna komu af vítalínunni en hjá Borgnesingum var það Paxel gamli sem var að sýna gamalkunna takta og var búinn að setja heil 17 stig í andlitið á heimamönnum sem virtust ekki vita sitt rjúkandi ráð þegar kom að því að stöðva eina bestu skyttu í sögu deildarinnar.
 
Tindastóll byrjaði reyndar annan leikhlutann með ágætum og ætluðu sér ekki að láta Skallagrím taka sig í bólinu mikið lengur. Þegar staðan var 28 – 34 kom svo að vissum vendipunkti í leiknum. Helgi Rafn fékk þá dæmda á sig sína þriðju villu og og talaði frekar hátt í kjölfarið sem endaði með því að hann fékk einnig dæmda á sig tæknivillu og var þar með kominn með fjórar villur og var látinn hvíla vel í kjölfarið. Við þetta riðlaðist leikur heimamanna þónokkuð og Skallarnir gengu á lagið og skoruðu næstu 10 stig og allt í einu var munurinn orðinn 16 stig. Í hálfleik var staðan svo 35 – 48.
 
Það er skemmst frá því að segja að þessi þrettán stiga munur sem var á liðunum í hálfleik hélst út leikinn. Tindastólsmenn reyndu áhlaup en höfðu einfaldlega ekki erindi sem erfiði þar sem Skallagrímur einfaldlega stjórnaði þessum leik nánast frá a til ö. Lokatölur urðu því eins og fyrr segir 72 – 85.
 
Stig Tindastóls: George Valentine 20/19 fráköst, Drew Gibson 13, Svabbi 11, Helgi Rafn 10, Helgi Freyr 8, Arnar 5, Ingvi 3 og Þröstur 2.
Stig Skallagríms: Páll Axel 28, Carlos Medlock 21, Haminn Quaintance 17/15 fráköst, Davíð 7, Trausti 4, Sigmar 3, Hörður 3 og Birgir 2.
 
Stuðningsmenn liða eru oft fljótir að benda á dómarana þegar illa gengur og vilja kenna þeim röndóttu um allt sem miður fer. Sú tilhneiging er til staðar á Sauðárkróki jafnt sem annarsstaðar. En staðreyndin er sú, að minnsta kosti í kvöld, að sama hversu slakir dómararnir hafi átt að vera þá voru heimamenn í Tindastól bara þeim mun slakari og verða að fara að líta í eigin barm og reyna að bjarga því sem bjargað verður áður en það verður um seinan.
 
 
Umfjöllun/ HS  
Fréttir
- Auglýsing -