Ármann tók á móti Njarðvík í 7. umferð 1. deildar kvenna í kvöld. Fyrirfram höfðu margir búist við öruggum sigri Njarðvíkur ef horft er til stöðutölfunnar. Leikurinn var hinsvegar mesta skemmtun.
Gangur leiksins
Ármenningar voru öflugar í upphafi leiks og ætluðu greinilega ekki að láta Njarðvík fara auðveldlega í gegnum leikinn. Pressuvörn Njarðvíkur gerði þó Ármanni erfitt fyrir að ná forystu og í öðrum leikhluta náðu Njarðvík tök á leiknum með nokkrum auðveldum körfum. Staðan í hálfleik 30-45 fyrir Njarðvík.
Gestirnir komu kraftmiklar til leiks í þriðja leikhluta en tókst ekki að gera algjörlega út um leikinn. Það var svo ekki í fjórða leikhluta sem endanlega slitnaði á milli liðanna og landaði Njarðvík að lokum 60-89 sigri.
Tölfræðin lýgur ekki
Njarðvík lék 1-2-1-1 pressuvörn stóran hluta leiksins sem Ármann náði ekki að leysa nægilega vel á löngum köflum. Það kom fram í 32 töpuðum boltum Ármanns.
Atkvæðamestar
Hjá Njarðvík var Chelsea Jennings stigahæst með 17 stig og var einnig með 7 stolna bolta. Jennings steig yfirleitt upp þegar mest á reyndi og Ármann gerði sig líklega til áhlaups. Vilborg Jónsdóttir var einnig öflug að vanda með 8 stig og 12 fráköst en hún stýrði leik Njarðvíkur að harðfylgi.
Jónína Þórdís Karlsdóttir var öflugust í liði Ármanns með 14 stig, 11 fráköst og 10 fiskaðar villur. Hin bráðefnilega Auður Hreinsdóttir átti einnig virkilega góða innkomu og var með 10 stig og 5 fráköst.
Hvað næst?
Njarðvík fór upp að hlið ÍR á toppi deildarinnar með sigrinum og eru í harðri baráttu um toppsætið. Næst mætir liðið Grindavík á útivelli.
Ármenningar eru nú í áttunda sæti 1. deildarinnar með einn sigur. Margt jákvætt var í spilamennsku liðsins í kvöld þrátt fyrir stórt tap, nokkur framför hefur verið á frammistöðu liðsins í síðustu leikjum og verður spennandi að sjá hvað liðið nær að gera þegar líður á tímabilið. Næsti leikur liðsins er gegn Tindastól þann 19. febrúar næstkomandi.