spot_img
HomeFréttirSannfærandi sigur Hauka

Sannfærandi sigur Hauka

Haukar unnu sannfærandi sigur á Tindastóli þegar þeir síðarnefndu mættu til leiks á Ásvelli í Iceland Express-deildinni. 19 stiga sigur Hauka varð raunin, 83-64, og sýndu liðsmenn Hauka oft á tíðum flotta takta á vellinum. Vel var mætt á leikinn en Haukar hafa tekið upp á þeirri nýbreytni að vera með mat fyrir leik gegn vægu gjaldi og fór það vel í stuðningsmenn Hauka sem nýttu sér þessa nýjung vel.
Það virtist eins og ferðalagið suður hafi farið eitthvað illa í Stólana en Haukar byrjuðu af krafti og komust strax í upphafi í 8-2. Gestirnir rönkuðu þá við sér og við tók 4-12 sveifla gestanna og þeir komnir yfir. Lokamínútur fyrsta leikhluta voru hníf jafnar og skiptust liðin á að skora. Hlutinn endaði með eins stigs sigri Hauka, 21-20.
 
Gestirnir skoruðu fyrstu körfu annars leikhluta sem varð ekki jafn jafn og sá fyrsti. Flottir taktar sáust frá Semaj Inge en þessi háloftafugl átti þó nokkrar troðslur í leiknum og öllum regnbogans litum. Haukar náðu tíu stiga forskoti áður en í hálfleik var komið og staðan 43-33 fyrir heimamenn.
 
Rauðir byrjuðu af miklum krafti í seinni hálfleik og náðu 18 stiga forskoti þangað til að gestirnir rönkuðu við sér. Þeir bitu fast frá sér og minnkuðu muninn niður í sjö stig en nær komust þeir ekki. Haukar tóku öll völd á vellinum það sem eftir lifið leiks og hleyptu gestunum ekki inn í leikinn aftur eftir sprettinn sem þeir tóku í þriðja leikhluta.
 
Semaj Inge var stigahæstur Hauka með 24 stig og 7 fráköst. Gerald Robinson var með trölla tvennu þegar hann gerði 18 stig og tók 22 fráköst, Örn Sigurðarson gerði 15 stig og Sævar Ingi Haraldsson var með tvennu líkt og Gerald en hann skorðaði 14 stig og gaf 11 stoðsendingar.
 
Hjá Tindastóli var Josh Rivers atkvæðamestur með 18 stig og 4 fráköst. Dragoljub Kitanovic skoraði 16 stig og tók 8 fráköst og Helgi Rafn Viggósson var með 10 stig og 9 fráköst.
 
Myndasafn úr leiknum.
 
Umfjöllun – Emil Örn Sigurðarson
 
Ljósmynd/[email protected]Félagarnir Gerald Robinson, Sævara Haraldsson og Semaj Inge fagna körfu Sævars í leiknum í kvöld.
 
Fréttir
- Auglýsing -