spot_img
HomeFréttirSannfærandi sigur gegn Kýpur

Sannfærandi sigur gegn Kýpur

 

Ísland sigraði lið Kýpur nú rétt í þessu nokkuð sannfærandi með 22 stigum sem er gott veganesti í mikilvægan leik gegn Belgum á laugardag.  Eftir að hafa átt erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik mætti liðið til seinni hálfleiks með fítons krafti og gersamlega völtuðu yfir gesti sína og endaði leikurinn 84:62.  Stigahæstur okkar manna í þessum leik var Hlynur Bæringsson í sínum 100. landsleik  með 18 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar. 

 

Umfjöllun um helsti þætti leiksins: 

 

Þáttaskil: 
Þriðji leikhluti má segja að hafi verið vendipunktur leiksins fyrir okkar menn þar sem að þeir skoruðu 27 stig gegn aðeins 10 stigum frá gestunum og varnarleikurinn sem fram að því hafði verið á hælunum orðinn vatnsþéttur. Klisjan með að sóknin komi með góðri vörn var enn og aftur sönnuð í þessum leikhluta. Erfitt er að tína út úr þessum leikhluta einstaklings framtak frá einum leikmanni þar sem að sú liðsheild sem liðið sýndi í september fyrir um ári síðan í Berlín var í framsætinu í þessari frammistöðu liðsins.  Við þetta hreinlega brotnuðu gestirnir, rifrildi innan þeirra raða fór að sýna sig.  Fjórði leikhluti langar manni að segja að hafi verið formsatriði en drengirnir þurftu að klára prógram kvöldins og gerðu það vel og vandlega.  

 

Tölfræðin lýgur ekki: 

 

Leikurinn í kvöld var kaflaskiptur að því leyti að í fyrri hálfleiknum var ákveðið jafnræði á með liðunum en í þeim seinni tók íslenska liðið öll völd á vellinum. Ef taka ætti einhvern tölfræðiþátt út úr seinni hálfleik þá væri það líklegast bæði sá munur sem var á liðunum í stigum skoruðum úr hraðaupphlaupum sem og stigum skoruðum inni í teig.

 

Ísland skoraði 20 stig úr hraðaupphlaupum á móti aðeins 5 hjá Kýpur. Þegar að Ísland komst á ferðina voru þeir oftar en ekki skeinuhættir. Sem dæmi þagnaði Höllin í hvert einasta skipti sem að hraðaupphlaup fór af stað og Kristófer Acox var inni á vellinum eftir að hann setti laglega “put-back” troðslu niður um miðjan leikinn.

 

Ísland skoraði einnig 34 stig á móti aðeins 12 hjá Kýpur inni í teig. Mikið til var það að þakka góðum leik frá bæði Hlyni Bærinssyni og áðurnefndum Kristófer Acox. Samanlagt settu þeir 20 stig inni í teig á rúmlega 83% nýtingu. 

 

Hetjan: 

Hetjan að þessu sinni er þjálfarateymið fyrir augljóslega frábæra hálfleiksræðu. Ekki vitum við hvað þeir sögðu við drengina í hálfleik en óhætt er að segja að liðið hafi snúið leiknum sem fyrr segir í þessum þriðja leikhluta. Miklu meiri ákefð var í leikmönnum og sóknarleikurinn sem var á köflum hálf vandræðalegur í fyrri hálfleik gekk sem smurð vél. 

 

Kjarninn: 

Sigurinn að þessu sinni gríðarlega mikilvægur en gæti hinsvegar orðið að engu í riðlinum. Leikir gegn liðinu í síðasta sæti riðilsins strokast út og því verðum við að vonast til þess að Kýpur vinni Sviss eða þá tapi ekki með meira en fjórum stigum þegar liðin mætast á laugardag. Sum sé best fyrir okkur yrði að Kýpur tæki sigur gegn Sviss.  Draumurinn um Eurobasket 2017 svo sannarlega vel lifandi og eins og leikmenn liðsins hafa sagt sjálfir í viðtölum þá er þetta í höndum liðsins.  Belgía er virkilega sterkt lið og erfiðir en þó langt frá því að vera ósigrandi.  Ef Ísland nær að forðast þann leik sem þeir sýndu í fyrri hálfleik í kvöld og spila vel á laugardag fullyrðum við að þeir sigra Belgana.  Við eigum nóg inni og þar má helst nefna tvo af okkar sterkari leikmönnum (Jón Arnór og Haukur Helgi)  sem augljóslega gengu ekki heilir til skógar í kvöld en samt vannst sannfærandi sigur. 

 

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -