spot_img
HomeFréttirSannfærandi hjá Hamri fyrir austan

Sannfærandi hjá Hamri fyrir austan

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar í körfuknattleik, var ekki par sáttur við frammistöðu síns liðs í 73-88 tapi fyrir Hamri á fimmtudagskvöld. Hattarmenn ætluðu sér stóra hluti fyrir leikinn en stóðu engan vegin undir eigin væntingum. Austurglugginn.is greinir frá.
 
 
Hamarsmenn voru yfir 31-44 í hálfleik. Yfirburðir þeirra í leiknum voru samt mun meiri en tölurnar gefa í raun vísbendingu um, fimmtán stig eru eins lítill og munurinn varð. 
 
Gestirnir úr Hveragerði spiluðu mjög góða vörn. Ekkert þýddi fyrir Hattarmenn að keyra að körfunni, þar blokkeraði tröllið Ragnar Á. Nathanaelsson skot Hattarmanna. Skotin lengra í burtu geiguðu.
 
Hamar byrjaði seinni hálfleik vel og var fljótt komið með ríflega tuttugu stiga forustu. Hattarmenn brugðust við með að reyna að hleypa upp leiknum með að auka hörkuna en það skilaði takmörkuðum árangri.
 
Þrír af bestu leikmönnum Hamars voru komnir í villuvandræði undir lokin en sluppu allir við að fá sínar fimmtu villur. Sá eini til þess var Benedikt Guðgeirsson úr Hetti. Tilþrif leiksins átti Örn Sigurðsson, miðherji Hamars, þegar hann stakk sér á bakvið körfuna, snarsnéri sér við og tróð yfir Frisco Sandidge og Benedikt.
 
„Við vorum bara slakir, alltof margir að spila undir pari. Við erum búnir að tala um þennan leik og ég ræði hann ekki meira,“ sagði Viðar Örn í samtali við Austurfrétt eftir leikinn.
 
„Næsti leikur er gegn FSu hérna heima á fimmtudaginn og þar komum við okkur bara aftur á sigurbrautina. Við tökum það jákvæða með okkur úr leiknum við Hamar og lagfærum það sem betur má fara. Þetta mót er ekki einu sinni hálfnað og við erum í góðri stöðu, nú er bara að halda áfram og safna stigum eins mörgum og mögulegt er.“
 
Frisco Sandidge var stigahæstur Hattarmanna með 30 stig en Austin Bracey skoraði 15. Fyrir Hamar skoraði Lárus Jónsson nítján stig.
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -