Landsliðskonan Sandra Lind Þrastardóttir er að öllum líkindum á leið til Danmerkur í nám og því kvarnast enn úr hópi kvennaliðs Keflavíkur fyrir komandi vetur. "Þetta er allt að koma í ljós núna í þessari viku varðandi skólann og það lítur allt út fyrir að ég verði í Danmörku í vetur. Ég kem til með að finna mér lið þarna úti og spila með þeim þá." sagði Sandra Lind í snörpu viðtali við Karfan.is
Sandra var lykilleikmaður í byrjunarliði Keflavíkur á síðustu leiktíð sem rétt misstu af úrslitakeppninni og enduðu tímabilið í 5. sæti. Sandra tók 9 fráköst og skoraði um 9 stig á leik fyrir Keflavík og var að öllu jöfnu í byrjunarliði liðsins.
Það hefur því heldur betur kvarnast úr liði Keflavíkur fyrir komandi tímabil en þær Guðlaug Björt (USA) , Bríet Sif (Stjarnan), Elva Falsdóttir (Valur) ásamt Söndru hafa allar yfirgefið liðið.