spot_img
HomeFréttirSan Marínó engin fyrirstaða gegn íslenska liðinu

San Marínó engin fyrirstaða gegn íslenska liðinu

Ísland var rétt í þessu að tryggja sér stórsigur á San Marínó þegar karlalið þjóðanna mættust í körfuboltakeppni Smáþjóðaleikanna. Ægir Þór Steinarsson átti flottan dag með íslenska liðinu en allir tíu leikmenn liðsins skoruðu í leiknum. Lokatölur voru 94-53 Íslandi í vil sem er næststærsti sigurinn gegn San Marínó.
 
Stærsti sigurinn gegn San Marínó kom síðast þegar þjóðirnar áttust við eða árið 2009 og vann Ísland þá 54 stiga sigur, 93-39 á Smáþjóðaleikunum á Kýpur. Ísland og San Marínó hafa leikið 11 landsleiki og Íslendingar unnið þá alla. Fyrsti leikur liðanna fór fram árið 1987 þegar liðin mættust í Mónakó á Smáþjóðaleikum.
 
Ægir Þór Steinarsson fór fyrir íslenska liðinu í dag með 27 stig, 24 þeirra komu í fyrri hálfleik! Geitungurinn baneitraður í dag með 2 af 3 í teignum, 6 af 9 í þristum og öll fimm vítin rötuðu rétta leið. Ægir var einnig með 3 fráköst og eina stoðsendingu. Fjórir leikmenn léku sinn fyrsta leik og skoruðu allir, Justin Shouse með 7 stig, Ragnar Nathanaelsson með 6 stig og 12 fráköst, Elvar Már Friðriksson með 3 stig og 3 fráköst og þá var Martin Hermannsson með 6 stig og 3 fráköst.
 
Ísland leiddi 20-17 eftir fyrsta leikhluta en vann svo annan leikhluta 23-8 og þriðja leikhluta 32-9. Lokatölur 94-53 og okkar menn voru ekki feimnir utan við þriggja stiga línuna, tóku 41 þriggja stiga skot í leiknum og 15 þeirra vildu niður, 36,6% nýting.
 
Karlaliðið er aftur á ferðinni á morgun kl. 18:30 þegar liðið mætir heimamönnum í Lúxemborg en kvennaliðið hefur daginn á leik gegn Möltu kl. 14:00.
 
Mynd/ KKÍ – Ragnar Nathanaelsson lék í dag sinn fyrsta A-landsliðsleik og skoraði í honum 6 stig, tók 12 fráköst og varði 1 skot.
  
Fréttir
- Auglýsing -