KR hefur sagt upp samningi sínum við bandaríska leikmanninn Danero Thomas. Þetta kemur fram á www.kr.is/karfa í dag. Thomas þótti ekki standa undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar.
Á heimasíðu KR í dag segir:
Körfuknattleiksdeild KR hefur sagt upp samningi sínum við Danero Thomas. Þrátt fyrir að vera góður félagi og liðsmaður hefur Danero ekki staðið undir þeim kröfum sem gerðar voru til hans sem leikmanns meistaraflokks karla. Danero skoraði 11 stig og tók rúm 4 fráköst að meðaltali í þeim 7 leikjum sem hann spilaði fyrir KR í Dominos deildinni og rúm 9 stig og 3 fráköst í Lengjubikarnum. Hann átti sinn besta leik gegn KFÍ í Lengjubikarnum þegar hann skoraði 19 stig, tók 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar í leik gegn KFÍ. Kkd.
KR þakkar Danero fyrir hans framlag og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.
Meistaraflokkur karla mun því tefla fram einum erlendum leikmanni í næstu leikjum og halda áfram að treysta á þann frábæra hóp af íslenskum leikmönnum sem skipa liðið.
www.kr.is/karfa
Mynd/ Heiða