spot_img
HomeFréttirSamantekt frá 56. körfuknattleiksþingi KKÍ

Samantekt frá 56. körfuknattleiksþingi KKÍ

Körfuknattleiksþingi KKÍ lauk um seinastliðna helgi. Þetta var það 56. og það hófst að morgni laugardagsins 15. mars og lauk stuttu fyrir kvöldmatarleytið. Kristinn Albertsson var var kjörinn formaður KKÍ til næstu tveggja ára en hann fékk þar þorra atkvæða gegn mótframbjóðanda sínum, Kjartani Magnúsi Ásmundssyni. Fjögur laus sæti voru í stjórn KKÍ en þau sem gáfu kost á sér voru Hugi Halldórsson, Jón Bender, Margrét Kara Sturludóttir og Sigríður Sigurðardóttir. Þar sem engin fleiri framboð komu var sjálfkjörið í stjórnina. Sitjandi í stjórn fyrir (til næsta þings 2027) voru þau Ágúst Angantýsson, Einar Hannesson, Guðrún Kristmundsdóttir, Herbert Arnarson og Heiðrún Kristmundsdóttir.

Breytingar á lögum KKÍ voru samþykktar, flest til þess gerð að straumlínulaga framkvæmd og stjórn laga KKÍ. Því sem breytt var m.a. það að formaður KKÍ væri héðan af kjörinn til tveggja ára í senn í stað fjögurra.

Nokkur málefni voru rædd á þinginu og meðal þess sem var samþykkt var breikkun á reglugerð um venslasamninga, að fella út sérstaka grein um liti á búningum liða og að B-lið karla munu keppa í 3. deild á meðan að lið í unglingaflokki karla munu keppa í 2. deild. Einnig voru samþykktar þingsályktunartillögur sem fela stjórn KKÍ að þrengja reglur um fjölda erlendra leikmanna, fjölga dómurum í þrjá á leik í 1. deild karla og kvenna og að finna kostunaraðila fyrir 1. deild karla og kvenna. Þá var líka samþykkt þingsályktunartillaga þess efnis að stjórn KKÍ finni fyrirkomulag þar sem að félög sem óska eftir því að skrá lið sitt í 1.deild karla eigi möguleika á því.

Stjórn KKÍ 2025-27

Ágúst Angantýsson
Einar Hannesson
Guðrún Kristmundsdóttir
Herbert Arnarson
Heiðrún Kristmundsdóttir
Hugi Halldórsson
Jón Bender
Margrét Kara Sturludóttir
Sigríður Sigurðardóttir

Helstu breytingar

Venslasamningar

Reglugerðarbreyting frá KR, Stjörnunni og KV og KFG um venslasamninga fór í gegn. Lið geta núna sótt sér allt að 6 leikmenn á venslasamninga svo lengi sem þeir komi allir frá sama liði. Ef sóttir eru leikmenn á venslasamninga frá mismunandi liðum má ennþá bara fá 3. KV getur þá t.d. sótt 6 leikmenn á vensla frá KR en Skallagrímur má aðeins sækja 3 venslaða leikmenn ef þeir koma frá ÍA og einhverju öðru liði, sem dæmi. 6 venslasamningar frá sama liði, annars bara 3.

Litir búninga hjá liðum

Í reglugerð stóð áður að heimavallarbúningur liða ætti að vera ljós á meðan að útivallarbúningur skal vera dökkur. Bent var á að þessar reglur, sem og undantekningar eins og að mega spila heimaleiki í sínum dökka litaða búningi með því að láta útilið vita með fyrirvara, væru nú þegar í reglum FIBA og var því fellt út úr reglugerð.

B-lið og U lið (ungmennaflokkar)

Samþykkt var að B-lið karla kepptu héðan af í 3. deild (og ættu ekki kost á að komast upp um deild) og að U lið karla (ungmennaflokkur) kepptu hér eftir í 2. deild karla.

Reglur um fjölda erlendra leikmanna

Þingið lagði það í hendur stjórnar KKÍ að finna útfærslu á 15. grein reglugerðar um körfuknattleiksmót, tengt fjölda erlendra leikmanna.

Stjórnin skal finna breytingu á greininni sem fækkar erlendum leikmönnum þannig að það verði að vera tveir leikmenn á vellinum hverju sinni með íslenskt ríkisfang. Stjórninni er gert að ljúka þessari vinnu fyrir 1. júní svo að breytingarnar taki gildi fyrir næsta leiktímabil (2025-2026).

Þá á stjórn KKÍ líka að kanna hvort að þriggja ára reglan svokallaða (erlendir leikmenn sem hafa átt fasta búsetu á Íslandi í 3 ár teljast sem íslenskir leikmenn) samræmist þessu. Stjórnin á líka að kanna hvort að sömu reglur eigi að gilda í öllum deildum eða ekki.

Þriggja dómara kerfi í 1. deildum

Þingið gerði stjórn KKÍ að koma á þriggja dómara kerfi í 1.deild karla og kvenna.

Nafn og kostun í 1. deildum

Þingið gerði stjórn KKÍ að leita að kostunaraðilum fyrir 1.deild karla og kvenna. 1. deildirnar yrðu þá ekki ósvipaðar og í fótboltanum (Lengjudeildin, Inkassodeildin o.s.frv.).

Skráning í keppni í 1. deild karla og fjöldi leikja

Stjórn KKÍ var gert að finna út leið til að öll lið sem eru ekki gjaldgeng í úrvalsdeild karla megi sækja um að keppa í 1. deild karla ef þau vilji. Þannig geti t.d. fleiri en 12 lið keppt í deildinni ef fleiri sækja um.

Ef færri en 12 lið eru í 1. deild karla skal stjórn KKÍ fjölga leikjum og þá horfa til þess að hafa þrefalda umferð í deildinni.

Fréttir
- Auglýsing -