Guðmundi Inga Skúlasyni hefur verið sagt upp sem þjálfara Voga í fyrstu deild karla. Staðfestir Guðmundur þetta í samtali við Körfuna rétt í þessu.
Uppsögnin kemur líklega flestum á óvart, þar sem að nýliðar Þróttar hafa verið spútniklið deildarinnar það sem af er tímabili. Sitja sem stendur í 5.-6. sæti deildarinnar með átta sigurleiki í fimmtán leikjum og hafa því þar með nánast náð að tryggja veru sína í deildinni á næsta tímabili.
Guðmundur tók við Þrótti árið 2021, er liðið var í 3. deild. Með honum vann liðið sig upp úr henni og upp í þá fyrstu, þar sem þeir meðal annars náðu fullkomnu tímabili 2022-23 með 22 sigrum og engu tapi.
Í samtali við Körfuna segir Guðmundur að ákvörðun Þróttar komi eilítið flatt upp á hann og þá sérstaklega með tilliti til gengis liðsins síðan hann tók við og á þessu tímabili, enn frekar segir hann “Ég er gífurlega stoltur af mínum tíma með Þrótti og því sem við náðum að afreka og óska ég þeim alls hins besta í framtíðinni” Varðandi hvað taki við hjá honum segist hann ekki viss með, hann muni nú njóta þess að vera í fríi í nokkra daga áður en hann fer að skoða hvað hann muni taka sér fyrir hendur næst.