„Það var mikið í húfi og það vilja allir komast í Höllina þannig að þær voru virkilega tilbúnar. Ég var mjög ánægður með hugarfarið alveg frá byrjun og greinilegt að við ætluðum að selja okkur dýrt og að mínu mati mættum við bara betur tilbúnar en þær,” sagði Henning Henningsson þjálfari Hauka í leikslok og var að vonum virkilega sáttur með góðan sigur sinna stúlka á Njarðvík í Subwaybikarnum í kvöld.
Miðherjar Hauka þær Ragna Margrét, Telma og Sara voru grimmar í fráköstunum og virtist hreinlega allir boltar detta í hendurnar á þeim. Henning var sammála því en var auk þess virkilega sáttur að sjá alla leikmenn sína berjast eins og ljón.
„Það er alveg rétt þær tóku slatta af fráköstum en þegar allir eru tilbúnir í þetta þá ganga hlutirnir bara miklu betur og það voru ekki bara þessar stelpur sem voru grimmar heldur voru þær allar að kasta sér í gólfið út um allan völl. Það er virkilega ánægulegt að sjá það þrátt fyrir að vera 20 stigum yfir þá er liðið ennþá að henda sér í gólfið. Þetta var bara virkilega góður sigur, sigur liðsheildar.”
Keflavík var allt annað en góður gestgjafi síðast þegar Haukar og Keflavík mættust í deildinni og endaði leikurinn þannig að suðurnesjastúlkur fóru með 20 stiga sigur. Það lá því beinast við að spyrja Henning hvort að Haukaliðið myndi mæta betur búnar í úrslitin gegn Keflavík?
„Að sjálfsögðu. Úrslitaleikur í Höllinni er alltaf sérstök uppákoma og þangað vilja allir komast. Keflavík er með mjög gott lið og eru að spila besta körfuboltann á landinu í augnablikinu og það verður bara gaman að fá að hitta þær í Höllinni og takast á við þær.”
Unndór Sigurðsson
„Við mættum ekki tilbúnar,” var það sem Unndór Sigurðsson þjálfari Njarðvíkurstúlkna sagði eftir leik við fréttaritara Karfan.is og var allt annað en sáttur með sitt lið.
Aðspurður að því hvort að þetta væri munurinn á liðunum sagði Unndór.
„Ég vil ekki meina það. Á meðan við erum allar á sömu bylgulengd í okkar liði og erum allar að fylgja þeirri stefnu sem við ætluðum okkur og leggjum okkur 120% fram þá held ég að við stöndum jafnfætis Haukaliðinu. Í dag virkaði það eins og sumir leikmenn voru með hugann annars staðar en við Höllina sem er bara ótrúlegt.”
„Það kom bara smá mótlæti og það eru ákveðnir hlutir í gangi hjá okkur núna sem við þurfum að fara að vinna almennilega í sem gera það að verkum að ákveðnir leikmenn eru ekki að sinna sínum kröfum og við þurfum að fara að laga það,” sagði Unndór en góður kafli Hauka í fyrri hálfleik virtist slökkva í Njarðvíkingum sem náðu sér aldrei á strik eftir það.
Unndór segir lið sitt vera á réttir leið og að það þurfi bara að horfa fram á veginn. Hann var hinsvegar allt annað en sáttur við að hafa mætt á Ásvelli og horft á lið sitt ekki veita Haukum meiri mótspyrnu en það gerði.
„Okkur var spáð neðsta sæti í deildinn og jafnfram var talað um að við myndum ekki vinna leik. Við afsönnuðum það og erum með 10 stig í deildinni og erum á réttri leið. Við þurfum að horfa fram á við og byggja á því en syndin er sú að við erum hársbreidd frá því að komast í Höllina og við mætum og veitum ekki meiri mótspyrnu en þetta. Haukarnir héldu haus og spiluðu sinn leik en mér fannst sumir leikmenn hjá mér bara týndir og virkuðu með hugann annars staðar.”
Mynd: Henning Henningsson var ánægður með leik sinna kvenna í kvöld – Tomasz Kolodziejski