spot_img
HomeFréttirSagt eftir leik á Ásvöllum

Sagt eftir leik á Ásvöllum

Svavar Páll Pálsson spilaði sinn fyrsta deildar leik fyrir Hauka í gærkvöld þegar Haukar unnu góðan 15 stiga sigur á liði Vals í nýliðaslagnum þetta árið.
 
Svavar er heilt yfir ánægður með leik Hauka en viðurkennir alveg að haustbragurinn ógurlegi hafi alveg verið til staðar
 
„Heilt yfir er ég ánægðu. Auðvitað gengur þetta mis vel og það koma mistök. Maður hefur séð á þessum leikjum sem við höfum verið að spila að það er alveg þessi haustbragur yfir öllu en ég held við getum verið sáttir við leikinn í dag. Við erum búnir að vera að vinna í hlutum sem eru að smella og erum bara í góðum, já góðum gír.“
 
Svavar ákvað fyrir þetta tímabil að rífa fram skóna og spila með Haukum en áður hafði hann gert gott mót með liði Hamars. Hann er óðum að ná upp leikformi og kom sterkur inn af bekk Haukamanna í fjórða leikhluta.
 
Þegar hann var spurður hvort þetta væri allt að koma hjá honum sagði Svavar: „Já, ég er reyndar ekki búinn að taka fullt undirbúningstímabil með liðinu en það besta sem hefur komið fyrir vítaskotið mitt er að taka mér frí í eitt og hálft ár þannig að þetta er allt að koma sko og ég nálgast.“
 
Birgir Björn Pétursson miðherji Vals var að vonum ekki sáttur í leiks lok og sagði að liðið hafi verið í bullandi vandræðum með varnarfráköst. Haukar rifu niður 25 sóknarfráköst í leiknum og gerðu oft Valsmönnum lífið leitt í teig þeirra.
 
„Þetta var alveg jafn leikur svona mest allan tímann en það sem fór með okkur voru þessi varnarfráköst. Við þurfum að laga það því í þessum leik var það mesti höfuðverkurinn og það þurfa allir að taka þátt í því,“ sagði Birgir.
 
Fyrir mótið var liði Vals spáð neðsta sæti deildarinnar og falli en Birgir er ekki sammála því og segir liðið alveg í stakk búið að fara að hala inn stigum.
 
„Okkur finnst við vera töluvert betri en aðrir finnst við greinilega vera.Við eigum alveg helling inni mér finnst við vera með fínt lið. Það er margt sem við getum lagað og ef við gerum það þá förum við að taka sigra mjög fljótt.“
 
Fréttir
- Auglýsing -