Sævaldur Bjarnason þjálfari er nýkominn til Íslands aftur eftir 10 daga ferð til Tyrklands þar sem hann meðal annars fékk að sitja þriggja daga námslotu í Mugla og fylgja stórliði Fenebahce eftir í Istanbul. Sævaldur hefur víða komið við á sínum þjálfaraferil, þar sem hann hefur verið bæði aðstoðar og aðalþjálfari í efstu deildum karla og kvenna og verið með landsliðum Íslands. Karfan heyrði í Sævaldi og fékk að spyrja hann út í Tyrklandsförina.
Á hvaða ferðalagi varstu þessar síðustu tæpar 2 vikur?
Ég var í Tyrklandi síðustu 10 daga í tengslum við fjölþjóðlegt framhaldsnám sem ég stunda í HR. Mér bauðst að fara í þessa draumaferð rétt eftir áramótin. Ég sló til og sé svo sannarlega ekki eftir því. Fyrstu 3 dagana var ég í námslotu í háskólabænum Mugla í Suður – Tyrklandi og svo næstu sjö daga var ég í Istanbul hjá Fenerbahce Beko körfuboltaliðinu en þeir eru bæði í Tyrknesku deildinni og í Euroleague en þeir eru þessa dagana í hörkubaráttu um að komast í úrslitakeppnina þar.
Hvernig kom það til að þú fórst í þessa ferð?
Núna í haust var haft samband við mig frá HR – Daði Rafnson kennari við HR hringdi og bauð mér að taka þátt í þessu spennandi verkefni sem þeir voru að þróa og setja á laggirnar. Verkefnið heitir Coached6 – Mastercoaching and coaching the coaches en það er samvinnuverkefni fjögurra háskóla í Evrópu. Auk HR er um að ræða skóla í Danmörku, á Möltu og Tyrklandi. Þetta er nám fyrir reynslumikla þjálfara á efsta stigi. Námið er á meistarastigi hjá þessum fjórum háskólum og gefur að því loknu einingar fyrir þá gráðu. Í upphafi var sex einstaklingum í hverju landi, þvert á íþróttagreinar, boðið að taka þátt í Náminu. Því er skipt upp í fjórar tveggja mánaða lotur sem hver um sig hefur sitt viðfangsefni:
Unit 1: An Introduction to Sports Coaching
Unit 2: The Theory and Practice of Sports Coaching Pedagogy
Unit 3: Elite Development Coaching
Unit 4: The Theory and Practice of Performance Analysis
Fjögur viðfangsefni eru fjölbreytt en alltaf er fengist við þjálfun á afrekssviðinu og spurt spurninga eins og t.d. Af hverju við þjálfum eins og við þjálfum? og Hvernig hægt er að þróa afreksmenn í þjálfun? Nemendum stendur svo til boða að fara í heimsókn til einhvers af þessum samvinnuskólum. Þar sem að námið er á afreksstigi þá er mælt með að komast í svokallað “job shadowing” en í því felst að reyna að komast að hjá einhverju atvinnumannaliði og fá að fylgja þeim eftir í vikutíma og fá að sjá hvernig þessi stóru lið úti í heimi huga að sínum afreksíþróttamönnum og undirbúa sig fyrir leiki. Eftir að ég kláraði FECC þjálfaranámið hefur maður náð ágætis tenglsaneti og einn kennarinn í því námi er einmitt góður vinur Alexanders Jordovic sem er aðalþjálfari Fenerbahce. Ég setti mig þannig í samband við hann og hann tók mér afar vel og bauð mér að koma og vera hjá þeim þann tíma sem ég vildi.
Hvernig var að vera í kringum Fenerbahce?
Hvar á maður eiginlega að byrja?! Það er auðvitað bara fyrst og fremst heiður og mikill lærdómur í því að fá að fylgjast með svona risastóru félagi að störfum. Að fara á skotæfingu með Nando Decolo og Jan Vesely í upphafi dags er hressandi! Þeir eru báðir að koma tilbaka eftir erfið meiðsli og æfa mikið sjálfir fyrir liðsæfingar. Öll umgjörð og aðstaða hjá liðinu er algjörlega til fyrirmyndar. Fenerbahce er líka með alvöru “budget” þannig að það er litlu til sparað þegar kemur að aðstöðunni og þeirri þjónustu sem þeir bjóða sínum leikmönnum.Þeir töluðu, sem dæmi, um að vilja nálgast meira NBA-liðin í aðstöðu svo það var skellt í eldhús með kokki bara við hliðina á búningsklefanum þeirra sem eldar mat ofan í alla eftir þörfum. En að sama skapi er álagið líka mjög mikið. Þeir eru að spila um og yfir 90 leiki í öllum keppnum á tímabilinu þannig að álagið á þessa menn er ótrúlegt og ólíkt NBA deildinni þá eru þessir leikir í Euroleague allir mjög intense og spennan mikil. Hvert possession skiptir máli á meðan NBA deildin og leikmenn eru kannski í ”mýkra” andrúmslofti á tímabilinu. Einnig er mikið um ferðalög og annað áreiti sem kemur inn í þetta. Vikuna sem ég var þarna með þeim áttu þeir tvo heimaleiki, vikuna áður höfðu þeir verið í norður Tyrklandi í útileik í deildinni og fóru svo til Mílanó og spiluðu þar í Evrópudeildinni., Leikirnir heima voru gegn Real Madrid sem er í efsta sæti Euroleague og Bayern en þessi lið eru í mikilli baráttu um að komast í topp 8 og þar með úrslitakeppni Euroleague. Í stuttu máli tóku allir í liðinu, þjálfarar og leikmenn og allir þeir fjölmörgu sem koma að liðinu mér mjög vel. Ég fékk svo til óheftan aðgang að öllu því sem mig langaði og átti löng samtöl við þjálfarann þeirra Sasha Jordovic, sem er eitt allra stærsta nafnið í Evrópskum körfubolta, en einnig Rado Trifunovic einn af aðstoðarþjálfunum. Rado var hér á Íslandi með þjálfarnámskeið fyrir nokkrum árum og var aðalþjálfari Slóveníu fyrir fáum árum síðan. Hann er algjörlega frábær gaur og það var virkilega gaman að vera í kringum hann þessa viku, læra af honum og bara spjalla en hann hjálpaði mér mjög mikið og bauð mig velkominn í þeirra hóp þessa viku. Andrúmsloftið var létt og gott í þjálfarateyminu og alveg hægt að grínast í þessum mönnum.
Hvernig voru æfingar og undirbúningur ólíkar því sem tíðkast hér heima eða þú hefur séð áður?
Þar sem leikjaálagið er svona rosalega sögðu þjálfararnir að þetta væri alltaf annað hvort recovery æfing eftir leik eða síðasta skotæfing fyrir leik. En það sem mér fannst mjög áhugavert var að þeir eru mjög meðvitaðir um álagið. Þeir eru með 17 manna hóp og senda þeir alltaf þá sem spiluðu mikið yfir í lyftingarsalinn með styrktarþjálfara og sjúkraþjálfara en þeir sem spiluðu minna eða hvíldu í síðasta leik eru þá í hörku æfingum á gólfinu. Það sem ég tók líka eftir er að aðalþjálfarinn er í raun ekkert svo mikið að “þjálfa / drilla” heldur sjá aðstoðarþjálfarnir að mestu um allar æfingar en hann er svo bara röltandi, fylgist með, spjallar við menn einn á einn og heldur mönnum á tánum. Svo tekur hann líka menn á teppið ef það er eitthvað sem hann sér sem honum mislíkar. Það er alveg augljós verkaskipting hjá þeim og menn sinna bara sínum hlutverkum af fullum krafti og þeim er treyst til þess. Mér fannst einnig mjög skemmtilegt var að fá að sitja þjálfarafundi þegar þeir voru að skipuleggja leikinn gegn Real Madrid og forvitnilegt að sjá hvernig menn settu upp leikinn. Þar eru menn að tala eins og við hér heima, hvernig eigum við að gera árásir á þetta PNR action, hvernig eigum við að dekka ákveðnar aðstæður nú eða jafnvel hvaða leikmenn á að taka úr liðinu í þessum leik eða slíkt. Raunverulega eru þeir að tala um sömu hlutina og meistaraflokksþjálfarar hér heima. Þeirra veruleiki er hvernig á að dekka PNR með Tavares og Sergio Llull á meðan okkar hvernig við setjum upp okkar varnaleik. Verkefnin eru þau sömu í þessum bolta og þeim íslenska, bara mismunandi gæði í þeim leikmönnum sem um ræðir.
Sérðu fyrir þér að nota eitthvað af því sem þú upplifðir þarna úti?
Ég var mjög duglegur að glósa hjá mér allar æfingar ofl. alla vikuna því ég trúi því að maður sé alltaf að læra. Og ef að þessir menn geta ekki kennt manni eitthvað þá þarf maður að íhuga sjálfan sig aðeins. Þar sem ég er ekki að þjálfara meistaraflokk á þessu tímabili setti ég mér það markmið að reyna að halda mér við eins og kostur er og vera þannig tilbúinn næst þegar tækifæri býðst. Það er auðvitað einstakt tækifæri að fá að fylgjast með svona stórum félögum hvernig þeir haga sínum hlutum og hvernig þeirra nálgun á leikinn er. Ég mun hiklaust nýta mér þessa reynslu og er betri fyrir vikið. Ég kem heim með mjög margar skemmtilegar æfingar í farteskinu en ekki síður bara ótrúlega skemmtilega reynslu að sjá og fylgjast með þessum gæðaleikmönnum og þjálfurum að störfum. Það er líka afskaplega mikil lærdómur í því að sjá hvernig aðrar þjóðir og lið vinna vinnuna. Við höfum ekki þessa gríðarlegu fjármuni en ég sé líka að mjög margir hér heima eru að reyna að gera vel og öll okkar videovinna , scouting og annað er á margan hátt alls ekkert ósvipað þeirra vinnu.
Hvernig var svo leikurinn gegn Real Madrid?
Þessi leikur var eitthvað allt annað en ég hef orðið vitni að áður en ég hef farið á fjölmarga leiki bæði í A-deild yngri landsliða sem og leiki í NBA eða háskólaboltanum. Stemningin í höllinni var ótrúleg, 15 þúsund kolbrjálaðir stuðningsmenn sem öskruðu stöðugt þegar Real var í sókn og hvöttu sitt lið til dáða. Mikilvægi leiksins var mikið, sérstaklega fyrir Fenerbahce en þeir eru í harðri baráttu um að komast í topp 8 og þar með inn í úrslitakeppnina en aukinheldur voru mikil gæði í bæði varnar og sóknarleik beggja liða. Það er hending ef maður sér lélegt skot hjá svona liðum og varnarlega voru menn algjörlega “locked in” og héldu Real í 17 stigum í hálfleik. Leikurinn endaði svo 66-51 fyrir heimamönnum sem milli þessara tveggja toppliða myndu einhverjir sérfræðingar hér heima segja að væri lélegt en varnarleikur og gæði leikmannanna og þjálfara er bara það mikil að það var unun að fylgjast með fyrir þjálfaranördinn í okkur öllum.
Er eitthvað sem stendur uppúr, fyndið eða skemmtileg saga?
Já, ein geggjuð saga af mörgum úr þessari ferð er hversu seinheppinn ég stundum get verið. Ég s.s mæti á æfingu á leikdegi í rauðum pólóbol eins og gengur og gerist. Ég sest bara við völlinn og leikmenn og þjálfara fara að koma sér inn í salinn og svona. Æfingin hefst og ég bara í góðum fíling. Þá kemur einn af fjölmiðlafulltrúum liðsins og spyr mig hvort hann ég ætli að mæta í þessum bol á leik kvöldsins. Ég segi bara ja….. nei ætla nú að fara og kaupa mér eitthvað gult eða blátt og mæta í því í kvöld. Þá segir hann heyrðu það er eins gott fyrir þig því að þú situr þar sem fjölskyldur og heitustu stuðningsmenn liðsins eru fyrir aftan bekkinn okkar og þar sem rauður er litur höfuðandstæðinga okkar í Tyrknesku deildinni, Galatasaray, getum við ekki tryggt öryggi þitt á leiknum ef þú ert rauður. Þú verður líklega bara laminn í klessu ef þú mætir í þessu í þetta sæti í kvöld! Hahaha, stutta lausnin mín var að fara rakleiðis inn í Mediaroom og kaupa mér gult og blátt. Rauði bolurinn fór í ferðatöskuna það sem eftir lifði ferðar.
Eitthvað sem þú vilt koma að lokum?
Mig langar bara að hvetja alla sem eiga kost á því, til þess að skoða æfingar hjá öðrum, við getum alltaf lært af hvort öðru og orðið betri þannig. Þeir sem eiga þess kost að komast út fyrir landsteinana og hafa einhver sambönd ættu hiklaust að reyna að fá að komast á æfingar og stækka sjóndeildarhringinn sinn. Mín reynsla er að allir sem ég hef haft samband við hafa tekið manni opnum örmum. Körfuboltaheimurinn er ótrúlega lítill í stóra samhenginu og það eru tengingar ótrúlega víða sem við eigum að nýta til þess að eflast, þroskast og verða betri. Það er líka orðið ýmislegt nám í boði, bæði hjá KKí og háskólunum sem bæði eykur gæði og þekkingu íslenskra þjálfara og veitir fólki tækifæri til að upplifa svona ævintýri.
Vonandi hefur þetta viðtal og þessi vika mín hvetjandi áhrif á aðra til að reyna að komast út hvort sem það er til þess að skoða aðstæðurnar í USA, háskólaboltanum , Evrópu nú eða bara þjálfarar sem eru að þjálfa yngri flokka eða neðri deildirnar að fá að kíkja á æfingar hjá þjálfurum í efstu deildunum hér heima. Eins er ég alltaf tilbúin að aðstoða aðra þjálfara á hvern þann hátt sem ég mögulega get.
Þegar maður er viss um að maður geti ekki lært neitt af öðrum og kunni þetta allt er það tíminn sem við eigum að hætta að þjálfa og finna okkur eitthvað annað að gera.