spot_img
HomeFréttirSæþór hetja ÍR-inga í enn einum framlengdum sigri í Hertz Hellinum

Sæþór hetja ÍR-inga í enn einum framlengdum sigri í Hertz Hellinum

Það er alltaf fjör þegar ÍR og Keflavík mætast. Síðasta viðureign liðanna endaði í framlengingu sem lauk með sigri ÍR. Í kvöld var þar engin undantekning. Í leik sem fór hægt af stað skiptust þessi lið á körfum í seinni hálfleik líkt og boxarar sem skiptast á höggum, en hvorugt liðið virtist vilja klára leikinn almennilega. ÍR-ingar áttu þó rothöggið í lok framlengingar og varði heimavöllinn með mikilvægum sigri fyrir jólafrí, en þar munu þeir verma toppsætin fjögur með Haukum, KR og Tindastól.

 

Þáttaskil

ÍR-ingar byrjuðu leikinn afar illa og réðu ekkert við kröftuga svæðisvörn Keflavíkur, auk þess að vera á hælunum í vörn framan af. Í öðrum leikhluta spýttu heimamenn í lófana, skelltu í lás og hisjuðu upp um sig brækurnar í sókn. Agaður sóknarleikur kom liðingu aftur í góða stöðu fyrir seinni hálfleik sem var í járnum allt til loka. 

Hetjan

Þótt Ryan Taylor og Matthías Orri hafi dregið vagninn í sóknarleik liðsins var ólíkleg hetja liðsins Sæþór Elmar Kristjánsson sem lét rigna úr horninu hjá ÍR með hvern risaþristinn á fætur öðrum. Sæþór setti niður 7 af 9 þriggja stiga skotum sínum og lauk leik með 21 stig. Borce þjálfari ÍR sagði í spjalli við Karfan.is (myndband hér að neðan) að þessi tilraun sín væri að virka en þá á hann við að spila Sæþóri – sem er um tveir metrar á hæð – í stöðu vængmanns en ekki festa hann í teignum. 

Tölfræðin lýgur ekki

ÍR tók 18 sóknarfráköst og skoraði 17 stig eftir þau. Keflvíkingum gengur illa að halda andstæðingum sínum frá sóknarfráköstum en þeir gefa að meðaltali frá sér tæplega 14 slík í leik. ÍR skoraði líka vel eftir tapaða bolta Keflavíkur eða 23 stig en Keflavík gekk illa að vinna jafn vel úr sínum.

Háu ljósin!

Ryan Taylor kveikti í húsinu með tveimur troðslum. Önnur var tröllatroðsla eftir magnaða fótafimi í teignum og hin ekki síðri eftir eigið frákast. Magnaður og nánast óstöðvandi leikmaður þegar hann ákveður að klára færin sín með tilþrifum.

 

 

Myndasafn:  Bára Dröfn

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -