spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaSærðir Grindvíkingar með blóð á tönnum!

Særðir Grindvíkingar með blóð á tönnum!

Ekki verður beint hægt að segja að aðdáendur Grindavíkur hafi mætt með brjóskassann útþaninn í stúkuna í kvöld en Keflvíkingar hreinlega niðurlægðu heimamenn í leik liðanna í Dominosdeildinni fyrir rúmum 2 vikum og var nánast eins og þar færi fram leikur karlmanna á móti börnum.  En hvað rúmar tvær vikur geta gert…  Grindvíkingar voru með þennan leik nánast allan tímann, 11 stigum munaði í hálfleik og þótt Keflvíkingar kæmu muninum stundum niður í 5-6 stig þá svöruðu heimamenn um leið og öruggur 15 stiga sigur staðreynd.

Ég ætla að setja hetjustimpilinn á Jóhann Þór þjálfara Grindavíkur sem fékk mikla gagnrýni á sig eftir viðtal eftir leik þessara liða um daginn.  Þar virtist Jóhann hreinlega kasta hvíta handklæðinu inn í hringinn….  Lítil batamerki hafa verið á leik liðsins síðan þá og má segja að þeir gulu hafi sloppið fyrir horn í síðustu umferð Dominosdeildarinnar á móti Val á heimavelli.  En Jói lagði þennan leik greinilega óaðfinnanlega upp og var vörn heimamanna (sem vel að merkja, mætti ekki til leiks fyrir rúmum 2 vikum) hreinlega frábær.  Jói setti nýja Evrópumanninn Bamba á Hörð Axel og Ólafur brósi Jóhanns glímdi við Craion og átti einfaldlega frábæran leik!  Var hæstur heimamanna þegar kemur að framlagspunktum (28), setti 20 stig, tók 13 fráköst og síðast en ekki síst þá hélt hann Craion í 18 stigum!  Vissulega gerði hann það ekki einn því heimamenn tvöfölduðu alltaf á hann en yfir höfuð þá var Óli frábær í þessum leik.  Tók bara eitt illa ígrundað 3-stiga skot (sem geigaði….)  Óli átti líka tilþrif kvöldsins þegar hann blokkaði glæsilega troðslutilraun Harðar Axels, Sigtryggur fékk boltann hinum megin og smellti niður þristi og þakið næstum því rifnaði af Röstinni!  Lewis Clinch jr. nálgast óðfluga sitt gamla góða form og var stigahæstur gulra með 21 stig og eitthvað var drengurinn að gera rétt því hann var hæstur í hinum mikilvæga +/- flokki.  Ósanngjarnt að taka fleiri út úr, þetta var sigur liðsheildarinnar.

Auðvitað ætluðu Keflvíkingar sér ekki að mæta værukærir til leiks eftir hinn mjög svo örugga sigur í deildinni um daginn en ég skal vera viss um að íþróttasálfræðingar votta um svona leikir geta oft verið hættulegir.  Keflvíkingar náðu sér í raun aldrei á strik, fengu reyndar talsverðan fjölda opinna skota en þau bara rötuðu ekki ofan í, einn af þessum dögum.  Michael Craion var bestur gestanna með 25 í framlag (18 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar) en aðrir voru einfaldlega talvert frá sínu besta.  Hörður Axel skaut heilum 15 3-stiga skotum en setti bara 4 niður (27%) og þegar fjöldi skota er jafnhár stigafjölda viðkomandi þá getur ekki verið von á góðu….   Gunnar Ólafsson sá eini í viðbót sem fór yfir 10 stiga múrinn, setti 14 stig.

En þannig fór það, Grindvíkingar komnir í 16-liða úrslit og Keflvíkingar geta einbeitt sér að deildinni.

Fréttir
- Auglýsing -