Hamarsmenn hafa fengið liðstyrk fyrir komandi átök í 1.deild karla, en Rúnar Ingi Erlingsson hefur ákveðið að ganga til liðsins frá Breiðablik þar sem hann lék á síðustu leiktíð. Frá þessu er greint á hamarsport.is
Á heimasíðu Hvergerðinga segir einnig:
Rúnar Ingi hefur einnig spilað fyrir Val og Njarðvík á sínum ferli, en hefur nú ákveðið að ganga til liðs við Hamar. Rúnar gerði að meðaltali 7 stig fyrir Blika í fyrra ásamt því að skila tæpum 11 framlagsstigum að meðaltali. Fyrsti leikur Rúnar verður næst komandi sunnudag þegar Hamarsmenn fara upp á Akranes og mæta liði ÍA en það er jafnframt fyrsti leikurinn sem Hamar spilar á tímabilinu. Fyrsti heimaleikur liðsins er svo föstudaginn 14.okt.
Hamarsmenn kynntu einnig á dögunum nýjan styrktarþjálfara hjá liðinu en við þeim starfa tekur Hjalti Valur Þorsteinsson sem á að baki um 40 meistaraflokksleiki með Hamri. Hjalti er útskrifaður ÍAK-einkaþjálfari og verður hann Andra Þór Kristinssyni til aðstoðar með lið Hamars í vetur.