Við höldum áfram að taka létta stöðu á þjálfurum liðanna í Subwaydeild kvenna og heyrum næst í Rúnar Inga Erlingssyni þjálfara Njarðvíkur. Rúnar Ingi stýrði Njarðvíkurliðinu nokkuð fimlega í gegnum bakdyrnar að meistaratitli tímabilið 2022 en liðið náði ekki að fylgja því eftir á síðasta tímabili. En Rúnar að venju brattur um komandi tímabil og undirbúning fyrir það. “Já núna fer svona alvöru undirbúningur á fullt en við erum ennþá ekki komnar með alla okkar leikmenn inn eftir sumarfrí , landsliðsverkefni og annað þannig við höldum áfram í meira einstaklingsmiðuðum æfingum þangað til að hópurinn kemur allur saman síðar í mánuðinum.” (Innsk: Viðtal tekið í byrjun Ágúst)
Rúnar Ingi kemur til með að þurfa að byrja svolítið á byrjunarreit með lið sitt fyrir þennan vetur. Allir erlendu leikmenn liðsins hafa silgt á önnur mið og munar þar auðvitað mest um Allyah Collier sem hefur verið með deildina í sínum eigin heljargreipum síðustu tvö ár þangað til hún meiddist illa í úrslitakeppninni í fyrra gegn Keflavík.
“Það er kannski ekki alveg kjörin staða að vera byggja upp alveg nýtt lið eða kjarna en á sama tíma eru skemmtileg tækifæri í því fyrir mig sem þjálfara sem og leikmenn liðsins sem vilja fá ný og stærri hlutverk. Mitt stærsta verkefni núna er að búa til góða liðsheild úr þeim leikmönnum sem spila fyrir Njarðvíkurliðið og verður fókusinn settur á það fyrst um sinn áður en ég ætla að pæla of mikið í því hversu góðar við getum orðið inná körfuboltavellinum. Við erum að sjálfsögðu að missa 7 mínútu hæðstu leikmennina frá því í fyrra en að sama skapi tel ég mig hafa fundið fjóra erlenda leikmenn sem styrkja okkur mikið og svo erum við heppin að eiga ótrúlega duglegar heimastelpur sem hafa lagt mikið á sig og eru tilbúnar að sanna sig ennþá meira á stóra sviðinu. Markmiðið er alltaf að vera á meðal bestu liða í deildinni en það er mikið verk fyrir höndum að koma okkur á þann stað.”
Undirbúningur liða er misjafn og rennir Rúnar nokkuð gróflega yfir hann hér að ofan en við erum forvitnir spurðum hann aðeins nánar út í undirbúning og æfingar liðsins á komandi vikum.
“Maður er alltaf að læra af reynslunni og ég ætla kannski aðeins nýjar leiðir í undirbúningstímabilinu í ár. Eins og ég sagði áðan , fyrsta verkefnið er að búa til liðsheild sem stendur saman og við getum treyst á þegar á móti blæs. Planið er að fara útá land í byrjun september og taka æfingahelgi ásamt einhverju góðu hópefli en við þurfum að vera sniðug í hvað við viljum nota tímann eftir að við fáum allan hópinn saman.”
Með nýjum leikmönnum og svo auðvitað nýráðnum aðstoðarþjálfara, Kristjönu Eir Jónsdóttir hljóta að vera áherslubreytingar á leikstíl liðsins og sagðist Rúnar vilja hraða leik liðsins frá fyrri árum.
“Leikstíllinn breytist að sjálfsögðu eitthvað með komu nýrra leikmanna sem hafa öðruvísi styrkleika en þeir sem fyrir voru. Við erum kannski með ennþá fleiri leikmenn núna sem eru góðir á boltann en á sama tíma með fullt af góðum skotmönnum. Ég vil að við spilum hraðar en á síðustu árum , ekki Run & Gun endilega , meira að við framkvæmum okkar aðgerðir hraðar og séum fljótari að fara í næsta möguleika þegar einn er lokaður. Markmiðið er allavega að spila skemmtilegan körfubolta og muna að njóta þess í gegnum tímabilið.”
Deildin sem slík hefur nú síðustu ár verið svolítið tvískipt þar sem að neðri lið og efri lið slást sín á milli. Biliið hinsvegar ætíð að minnka og í fyrra voru mörg af þeim neðri að taka einn og einn sigur af þeim efri og t.a.m. Grindavík ætíð að narta í hælana á Njarðvíkurliðinu með síðasta úrslitakeppnissætið.
“Já maður heyrir umræðuna um að deildin gæti orðið svolítið tvískipt en ég hef svo sem lítið pælt í því. Ég veit bara að það eru mörg lið sem eru með gríðarlega sterka leikmannahópa , önnur lið sem hafa kannski ekki sannað sig í efstu deild en eru með margar af okkar efnilegustu körfuboltakonum innanborðs. Ég held allavega að þetta verði stórskemmtilegt tímabil og gæti vel trúað því að það verði svakaleg barátta um að komast í efstu 5 sætin eftir áramót.” sagði Rúnar að lokum.