15:55
{mosimage}
Roy Tarpley, fyrrum leikmaður NBA-liðsins Dallas Mavericks, hefur höfðað mál gegn NBA-deildinni og félaginu sjálfu en Tarpley var bannað að leika í deildinni árið 1996. Tarpley er 42 ára gamall en hann hefur ekki hug á því að fá leyfi til þess að leika á ný í deildinni en hann vill fá mannorð sitt til baka.
Hann var valinn í nýliðavalinu árið 1986 af Dallas og þótti hann einn besti miðherji deildarinnar á þeim tíma. Tarpley lék með Dallas fram til ársins 1991 en þá var hann dæmdur í keppnisbann í október 1991 vegna eiturlyfjanotkunar.
Tarpley lék með grískum liðum í tvö ár en árið 1994 fékk hann keppnisleyfi á ný í NBA og gerði hann sex ára samning við Dallas sem tryggði honum um 1,2 milljarða kr. í laun á þeim tíma.
Í desember árið 1995 var Tarpley sagt upp störfum hjá Dallas vegna áfengisnotkunar og NBA-deildin fylgdi í kjölfarið og setti hann í ótímabundið keppnisbann.
Tarpley hefur frá þeim tíma ítrekað óskað eftir því að keppnisbanninu verði aflétt og núna ætlar hann að leita leiða í gegnum dómskerfið til þess að endurheimta mannorð sitt.
Mynd: www.usatoday.com