spot_img
HomeFréttirRólegheitaleikur varð spennuviðureign að Ásvöllum

Rólegheitaleikur varð spennuviðureign að Ásvöllum

 
KR landaði spennusigri á Haukum í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Liðin mættust að Ásvöllum þar sem framlengja þurfti viðureignina eftir nokkur rólegheit framan af, lokaspretturinn var skemmtilegur og fengu vel flestir leikmenn liðanna að spreyta sig. KR lauk því keppni í 3. sæti A-riðils og mæta Snæfell í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og Haukar, sem enduðu í 4. sæti, mæta Njarðvík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Í leik sem skipti ekki máli upp á endanlega röðun í A-riðli ákváðu Haukar og KR að hvíla varnarleikinn í fyrsta leikhluta. Einnig fengu Signý Hermannsdóttir og Hafrún Hálfdánardóttir hvíld í liði KR sem og þær Helga Jónasdóttir og Ragna Margrét Brynjarsdóttir í liði Hauka.
 
Vesturbæingar áttu oft greiða leið upp að Haukakörfunni á fyrstu tíu mínútunum og leiddu því 17-27 að loknum fyrsta leikhluta þar sem flestir leikmenn beggja liða fengu að spreyta sig. Í öðrum leikhluta náðu KR-ingar að halda Haukum fjarri, í um það bil 10 stiga fjarlægð en rauðar bitu frá sér á endasprettinum og náðu að minnka muninn niður í 7 stig, 36-43 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
 
Bryndís Hanna Hreinsdóttir var með 9 stig hjá Haukum í hálfleik, 3/5 í þristum en Chazny Morris var með 14 stig og 6 fráköst í liði KR.
 
Haukar voru í svæðisvörn í þriðja leikhluta og náðu að minnka muninn í 4 stig, 48-52 en þá stakk KR af að nýju og leiddu 50-60 að loknum þriðja leikhluta þar sem varnarleikur beggja liða var mun skárri en í fyrri hálfleik.
 
Í upphafi fjórða leikhluta var Margrét Kara Sturludóttir rekin úr húsi fyrir óíþróttamannslega tilburði inni á vellinum sem gæti reynst dýrkeypt ef til leikbanns kemur enda úrslitakeppni framundan. Haukar nýttu sér meðbyrinn og fóru hægt og sígandi að nálgast KR, náðu svo loks að jafna 65-65 þegar Kathleen Snodgrass setti niður tvö víti þegar 55 sekúndur voru til leiksloka.
 
Þegar 12 sekúndur voru til leiksloka höfðu KR-ingar komist yfir, 66-68, Haukar voru í sókn og skref dæmt á Snodgrass. KR í kjöraðstöðu en Haukar komust inn í sendingu, Snodgrass sótti að körfunni og brenndi af en Lovísa Björt Henningsdóttir var rétt staðsett, náði sóknarfrákastinu og jafnaði 68-68 svo framlengja varð leikinn.
 
Framlengingin var jöfn og spennandi, Margrét Rósa Hálfdánardóttir setti þrist fyrir Hauka með tvær og hálfa mínútu til leiksloka og Haukar leiddu 73-71. Fleiri urðu stigin ekki hjá Haukum, KR setti í lás í vörninni og Chazny Morris kom KR í 73-74 á vítalínunni er hún setti niður annað skotið. Haukar áttu lokasóknina sem lauk með erfiðu skoti sem fór víðsfjarri og KR fagnaði því sigri.
 
 
Heildarskor:
 
Haukar: Margrét Rósa Hálfdánardótir 18/6 fráköst, Kathleen Patricia Snodgrass 13/7 fráköst, Íris Sverrisdóttir 10, Bryndís Hanna Hreinsdóttir 9, Lovísa Björt Henningsdóttir 8/10 fráköst/5 varin skot, Guðrún Ósk Ámundardóttir 5/5 stolnir, Dagbjört Samúelsdóttir 5, María Lind Sigurðardóttir 5, Ína Salóme Sturludóttir 0, Sara Pálmadóttir 0, Kristín Fjóla Reynisdóttir 0, Auður Íris Ólafsdóttir 0.
 
KR: Chazny Paige Morris 33/11 fráköst, Margrét Kara Sturludóttir 12, Hildur Sigurðardóttir 9/6 fráköst/6 stoðsendingar, Helga Einarsdóttir 8/7 fráköst, Sólveig Helga Gunnlaugsdóttir 6/6 fráköst, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 2, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 2, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 2/5 fráköst, Svandís Anna Sigurðardóttir 0/5 fráköst, Ingunn Erla Kristjánsdóttir 0, Helga Hrund Friðriksdóttir 0, Aðalheiður Ragna Óladóttir 0.
 
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Jakob Árni Ísleifsson
 
Umfjöllun og myndir: Jón Björn Ólafsson – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -