Njarðvíkingurinn Róbert Sean Birmingham söðlaði um í sumrinu og hóf nám á miðskólastigi í Bandaríkjunum (high school) við Cannon í Norður Karólínu, en hann hefur síðustu misseri verið á mála hjá Baskonia á Spáni.
Við komuna til Bandaríkjanna fékk Róbert staðfest að hann fengi tvö ár á miðskólastigi og er hann því kominn af stað í sitt fyrra ár af tveimur hjá Cannon. Skólinn hefur verið starfandi frá árinu 1969 og er einkarekinn.
Róbert hefur verið hluti af öllum yngri landsliðum Íslands síðastliðin ár, en nýliðið sumar var hann með undir 18 ára liði drengja sem gerði ansi gott mót á Evrópumóti ársins.