spot_img
HomeFréttirRisinn og prinsessan sameinuð á nýjan leik

Risinn og prinsessan sameinuð á nýjan leik

Í morgunsárið bárust fregnir af því að körfuknattleiksmaðurinn Adreian DeAngelo Payne hefði verið skotinn til bana í Bandaríkjunum. Margir kunna að spyrja sig hver var Adreian Payne og þegar því þarf að svara kemur fyrst upp í hugann einstakt samband hans við unga stúlku sem hlaut nafnið „Princess Lacey.“

Payne var skotinn til bana í Orlando í Bandaríkjunum og hefur lögreglan mann í haldi fyrir verknaðinn. Frekari málavexti er ekki að hafa að svo stöddu.

Adreian Payne var atvinnumaður sem hóf feril sinn í Jefferson High School og hélt þaðan í háskólanám við Michigan State þar sem hann dvaldi við nám árin 2010-2014. Payne var valinn til Atlanta Hawks í nýliðavalinu 2014 og kom m.a. við hjá Minnesota og Orlando áður en hann fór 2019 til Panathinaikos. Tímabilið 2021-2022 var hann svo á samningi hjá Juventus Utena í Litháen.

Árið 2011 þegar Payne var á mála hjá Michigan háskólanum fór körfuboltalið skólans í heimsókn til nærliggjandi spítala. Við spítalann var ung stúlka sem hét Lacey Holsworth en þar var hún inni vegna meðferðar á krabbameini. Hinn 20 ára gamli og 208 cm hái Payne eignaðist í þessari heimsókn liðsins einn sinn besta vin og helsta aðdáanda í hinni 8 ára gömlu Lacey Holsworth. Með þeim hófst vinskapur sem átti eftir að springa út í fjölmiðlum vestanhafs.

Fyrir vinskap risans og prinsessunnar naut Payne töluverðrar fjölmiðlaathygli enda sterkur leikmaður og ljóst að NBA lið væru að skoða hann. Þegar Payne fór svo að sjást á háskólaleikjum eiga spjall og gæðastundir með 8 ára gamalli stúlku og fjölskyldu hennar voru fjölmiðlar ekki lengi að komast á snoðir um hvernig vinskapur þeirra hefði komið til.

Vegna lyfjameðferðar upplifði Lacey Holsworth hármissi og mætti oftar en ekki á leiki hjá Michigan með myndarlega hárkollu með gyllta lokka. Hún hlaut snemma viðurnefnið „Princess Lacey“ og varð leikmönnum Michigan liðsins, aðdáendum þess og skólanum öllum mikill innblástur í baráttu sinni við krabbameinið. Tímablið 2013-2014 vann Michigan Big 10 mótið og þá fóru þau saman, risinn og prinsessan, upp stigann og klipptu saman netið af körfunni eins og tíðkast í boltanum vestanhafs. Lacey var einnig gestur Payne á „senior night“ við Michigan skólann sem er einskonar kveðjustund fyrir útskriftarnema.

Árið 2014 tapaði Princess Lacey baráttu sinni við krabbamein og hið sama ár hélt Payne af stað inn í NBA feril sinn. Sá ferill varð ekki lengri en síðasta leiktíð í Litháen.

Fjöldamörg myndbönd og aðrar umfjallanir má finna um samband Payne og Princess Lacey og mikið af því umfjöllunarefni tekur fram hve mikla andagift þessi unga stúlka færði sínu nærsamfélagi í Michigan. Nú eru þau sameinuð á nýjan leik, risinn Payne og prinsessan Lacey þó bæði hefðu þau eflaust beðið um meiri tíma.

Payne og Lacey og Big 10 titillinn

Fregnir af láti Princess Lacey

Fréttir
- Auglýsing -