spot_img
HomeFréttirRisaleikurinn í NCAA í kvöld

Risaleikurinn í NCAA í kvöld

17:00 

{mosimage}

 

(Greg Oden) 

 

Í kvöld fer fram úrslitaleikurinn í NCAA háskóladeildinni í Bandaríkjunum.  Það eru lið Florida og Ohio sem leika til úrslita og hefst leikurinn kl. 01:21 eftir miðnætti. Hann verður sýndur á NASN stöðinni sem næst á breiðbandi Símans.

    

Ohio State skólinn sem hefur í gegnum tíðina aðallega verið þekktur fyrir mjög gott fótboltalið eru búnir að spila gríðarlega vel í vetur með Greg Oden í fararbroddi.  Þeir lentu þó í töluverðu basli í bæði 32 og 16 liða úrslitum en unnu svo auðveldan sigur á Memphis í 8 liða úrslitum.

 

Fyrrnefndur Oden er stærsta stjarna liðsins og var þeirra stigahæsti leikmaður á tímabilinu auk þess að taka flest fráköst. Bíða menn í ofvæni eftir að sjá hann leika í NBA deildinni og má nær öruggt telja að hann verði valinn nr. 1 eða 2 í nýliðavalinu í sumar.  Aðrir leikmenn sem má fylgjast vel með eru Mike Conley Jr. og Ron Lewis sem gætu einnig dottið inní NBA fyrir næsta vetur

 

Florida kom skemmtilega á óvart í fyrra og fór alla leið í mótinu.  Í ár hafa þeir svo verið taldir mjög sigurstranglegir allt frá byrjun enda með nákvæmlega sama byrjunarlið og á meistaratímabilinu í fyrra.  Þeir hafa hingað til staðist allar þær væntingar sem til þeirra hafa verið gerðar og rúllað nokkuð þægilega í gegnum bæði riðlakeppnina sem og úrslitakeppnina.

 

Eins og fyrr segir hélt Florida liðið öllum byrjunarliðsmönnum sínum frá því í fyrra en það er nokkuð ljóst að svo verður ekki aftur eftir þetta tímabil. 

Það er jafnvel talið líklegt að Florida skólinn muni skila 3 leikmönnum í NBA fyrir næstu leiktíð og hugsanlega munu þeir allir verða valdir í fyrstu umferð nýliðavalsins.  Þetta eru þeir Al Horford, Joakim Noah og Corey Brewer.

 

Á laugardaginn fóru fram undanúrslitaleikirnir þar sem Ohio lagði Georgetown og Florida sigraði lið UCLA skólans.  Það voru flestir sem spáðu einmitt þessum úrslitum og þurftu hvorugt liðið að hafa sérstaklega fyrir því að stimpla sig inn í úrslitaleikinn. 

 

Ohio sigraði Georgetown 67-60 í leik þar sem Greg Oden tók minni þátt í en planað var, lék t.d aðeins 3 mínútur í fyrri hálfleik en hann lenti snemma í villuvandræðum og hefur það vandamál reyndar loðað við hann í allan vetur.  Mike Conley Jr. lék hinsvegar skínandi vel fyrir Ohio og skilaði 15 stigum og 6 stoðsendingum.

 

Hinn undanúrslitaleikurinn var endurtekning á úrslitaleiknum í fyrra þar sem lið Florida og UCLA áttust við.  Þar kláraði Florida leikinn án teljandi vandræða og var það sama uppá teningnum á laugardaginn.  Lokatölur 76-66 í leik þar sem Corey Brewer skoraði 19 stig og Al Horford hirti 17 fráköst.

 

Í desember áttust liðin sem leiki í kvöld einnig við í leik sem varð aldrei spennandi og þegar yfir lauk hafði Florida liðið skorað 86 stig gegn 60 stigum Ohio manna sem voru niðurlægðir á öllum sviðum körfuboltans.

Menn benda þó á að í þeim leik var Greg Oden aðeins rétt skriðinn uppúr úlnliðsmeiðslum sem höfðu hrjáð hann í nokkurn tíma og gat því ekki beitt sér að fullu.  Hann lenti einnig í villuvandræðum í þeim leik og skoraði aðeins 7 stig.  Al Horford átti hinsvegar góðan leik í liði Flordia og vann einvígið við Oden í það skiptið.

 

Það er þó alveg ljóst að Ohio menn munu ekki láta þetta gerast aftur.  Þeir hafa ekki tapað leik síðan 9. janúar, unnið 22 leiki í röð og eru til alls líklegir.

Florida liðið hefur líka leikið vel, unnið 9 leiki í röð og í þeim leikjum hafa þeir eininugis tvisvar fengið á sig meira en 70 stig.

 

Það er mikið litið til baráttu stóru mannana Al Horford og Greg Oden sem verður gríðarlega skemmtilegt einvígi sem mun þegar uppi er staðið vega þungt.  Það mun þó líka mæða mikið á bakvörðum liðana sem eru gríðarlega öflugir.

Hjá Florida eru þeir Lee Humphrey og Taurean Green báðir miklar skyttur og hjá Ohio er Mike Conley Jr. mjög drjúgur og eru margir á því að þrátt fyrir að hafa fallið í skugga Oden sé hann mikilvægasti leikmaður liðsins sem hefur haldið liðinu uppí þegar Oden hefur ekki verið með eða lent í villuvandræðum.  Ron Lewis er einnig góður leikmaður sem hefur sett niður mikilvæg skot fyrir liðið í vetur.

 

Ef að Florida vinnur leikinn verða þeir fyrsti skólinn til að vinna titilinn tvö ár í röð síðan Duke gerði það fyrir 15 árum og þeir fyrstu í sögunni til að vinna tvo titla í röð með sama byrjunarlið.

Ohio hefur ekki unnið titilinn síðan 1960 en þeir töpuðu svo úrlslitaleikjum næstu tvö ár á eftir.

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -