spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaRigndi múrsteinum í sigri Vals á Keflavík

Rigndi múrsteinum í sigri Vals á Keflavík

Valur og Keflavík mættust í kvöld í 18. umferð Domino’s deildar kvenna. Valur var fyrir umferðina í toppsæti deildarinnar með fimmtán sigurleiki en Keflavík var í 2.-4. sæti deildarinnar með tólf sigra. Það var gaman að horfa á leikinn, leikmenn voru tilbúnir að selja sig dýrt og berjast fyrir öllum boltum. Á moti kom að skotnýtingin var ekki upp á marga fiska. Valur leiddi allan leikinn í kvöld en Keflavík bjó til spennu í 3. leikhluta en Valsliðið sýndi styrk sinn og sigldi sigrinum í höfn, sannfærandi.

Gangur leiks:

Valskonur byrjuðu leikinn vel á meðan ekkert gekk, sóknarlega í það minnsta, hjá gestunum úr Keflavík. Valur komst í 12-0 og fyrstu stig Keflavíkur komu ekki fyrr en eftir fimm mínútur. Jonni, þjálfari Keflavíkur, tók leikhlé skömmu fyrir fyrstu stig Keflavíkur og fór yfir málin. Valur sigraði restina af 1. leikhluta með einu stigi og leiddi 24-11 að honum loknum. Það sem stakk mest í augun var 10% nýting Keflavíkur í þristum og sjö tapaðir boltar gegn þremur hjá heimakonum í Val.

Keflavík sótti mikið í 3ja stiga skotin og tók lið gestanna alls 17 slík í fyrri hálfleiknum á móti 18 2ja stiga skotum. Keflavík passaði boltann betur í öðrum leikhluta og minnkaði muninn niður í tíu stig fyrir leikhlé. Skotin voru ekki að detta hjá gestunum og ágætt í raun að vera einungis tíu stigum undir með rétt ríflega 25% skotnýtingu.

Keflavík minnkaði muninn minnst niður í fimm stig í þriðja leikhluta. Mikil barátta og vilji fyrir verkefninu til staðar. En Valskonur voru fljótar að ná forystunni upp í tveggja stafa tölu á ný. Valur hélt forskotinu þægilega út leikinn og sýndi liðið mátt sinn þegar liðið innsiglaði sigurinn.

Vendipunkturinn:

Svar Vals við öflugri byrjun Keflavíkur í 3. leikhluta. Keflavík náði muninum minnst niður í fimm stig þegar sjö mínútur lifðu leikhlutans og aftur þegar hann var hálfnaður. Rúmum tveimur mínútum seinna var munurinn orðinn þrettán stig fyrir Val og fór það langt meða að tryggja sigurinn.

Hetjan: Kiana Johnson

Engin spurning að Kiana var besti leikmaður vallarins í kvöld. Hún skoraði 22 stig úr einungis ellefu skottilraunum (7 af 11), gaf níu stoðsendingar og tók átta fráköst. Alls fiskaði hún átta villur og var heildarframlag hennar 34. Fyrir utan tölfræðina sást hvað hún gat brotið upp leikinn með því að keyra á körfuna og augljóst að hún býr yfir gæðum sem ekki margir leikmenn í þessari deild gera.

Tölfræðin lýgur ekki:

Valur skaut 38% af gólfinu og Keflavík 28% í kvöld. Það er ekki beint til útflutnings. Keflavík tapaði boltanum 21 sinni gegn tólf töpuðum hjá heimakonum. Eins og Jonni nefndi í viðtali þarf að hitta á betri skotdag til að eiga möguleika á að vinna Val.

Púslið sem vantaði?

Micheline Mercelita lék sinn annan leik fyrir Val í kvöld. Hún var ansi öflug að hirða fráköst sem voru í raun ekki hennar að hirða. Bæði Helena Sverrisdóttir, leikmaður Vals, og Darri Freyr, þjálfari Vals, sögðu í viðtali eftir leik að hún hefði komið inn með baráttu og sérstaklega frákastagetu sem var eitt af því sem Valsliðið vantaði. Það sást heldur betur í kvöld að hún gæti verið það púsl sem Valsliðið vantaði í sinn leik. Sérstaklega þegar lið hitta illa, eins og liðin gerðu í kvöld, þá er nauðsynlegt að hafa leikmenn sem geta tekið fráköst.

Hetju minnst á fallegan hátt:

Bæði lið byrjuðu leikin á því að heiðra minningu Kobe Bryant, goðsögn í körfuboltaheiminum, sem lést í þyrluslysi á sunnudag. Falleg stund og virkilega vel til fundið hjá liðunum í kvöld sem héldu boltanum fyrst í 8 sekúndur og 24 í upphafi leiks

Tölfræði leiks

Myndasafn

Myndir / Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -