Tvö efnileg kvennalið leidd af efnilegum kvenkyns þjálfurum mættust í Smáranum í kvöld. Breiðablik hafði sigur á KR í Smáranum, 59-48, í 1. deild kvenna, eftir leik þar sem gestgjafarnir tóku forystuna frá fyrstu mínútunni og létu hana ekki af hendi allan leikinn. Blikastelpur eru nú á góðu róli í 1. deildinni með 3 sigra á meðan að KR hefur núna einn sigur í tveimur leikjum.
Blikar hófu leik með þær Ingu Sif, Isabellu Ósk, Shönnu, Sóllilju og Telmu Lind inn á. Byrjunarlið KR-inga hafði að geyma þær Ástu Júlíu, Ingibjörgu Yrsu, Perlu, Rannveigu og Þorbjörgu Andreu. Frá fyrstu mínútu voru heimamenn betra liðið og tóku hægt og örugglega forystuna með góðu spili. Telma hóf leikinn með látum og átti fantagóðan byrjunarleikhluta ; 10 stig, 80% skotnýting, 3 stoðsendingar og 2 fráköst. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 24-12, Blikum í vil.
Í öðrum leikhluta héldu stelpurnar úr Kópavogi áfram að breikka bilið milli liðanna en hvorugt lið var að skora mikið í þessum leikhluta, og reyndar í öllum leiknum, en samanlagt stigaskor beggja liða í leikhlutanum var lægra en stigaskor Blika í þeim fyrsta. Breiðablik skoraði 11 stig á móti 8 stigum hjá KR og staðan í hálfleik því 35-20.
KR stúlkurnar mættu heldur beittari í öðrum hálfleikog náðu að vinna báða leikhluta, en þó ekki með nægilega miklu til að saxa á bilið sem Breiðabliksstelpurnar höfðu byggt upp í fyrsta leikhluta. Kristbjörg Pálsdóttir átti frábæran þriðja leikhluta (10 stig, 2 stolnir boltar, 2 fráköst, 1 varið skot) og aðkomustúlkurnar unnu leikhlutann með einu stigi, 17-16. Liðin fóru því í lokaleikhlutann í stöðunni 51-37.
Lokaleikhlutinn var heldur tilkomulítill, líkt og annar leikhlutinn, en stigaskor liðanna var mjög lágt í honum. Hinar svart- og hvítklæddu unnu leikhlutann með 3 stigu, 11-8. Lokastaðan því 59-48, Breiðablik í vil.
Leikurinn einkenndist af mistökum og mörgum töpuðum boltum (28 hjá Blikum og 22 hjá KR-ingum) en heimamenn fóru til allrar hamingju betur með færin sín (40% í 2ja og 3ja stiga skotum) en andstæðingarnir (31% í 2ja stiga skotum og 6% úr þristum), uppskáru sigur og tróna því á toppi 1. deildar kvenna. Það má með sanni segja að stelpurnar úr Kópavogi hafa tileinkað sér orð skáldsins: Reykjavík er okkar.
Breiðablik: Telma Lind Ásgeirsdóttir 15 stig/5 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir boltar, Shanna Dacanay 11 stig, Isabella Ósk Sigurðardóttir 10 stig/12 fráköst/4 stolnir boltar/3 varin skot, Sóllilja Bjarnadóttir 9 stig, Inga Sif Sigfúsdóttir 7 stig, Eyrún Ósk Alfreðsdóttir 6 stig, Hafrún Erna Haraldsdóttir 1 stig.
KR: Kristbjörg Pálsdóttir 13 stig/8 fráköst/3 stolnir boltar, Ásta Júlía Grímsdóttir 8 stig, Þorbjörg AndreaFriðriksdóttir 8 stig, Rannveig Ólafsdóttir/5 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 4 stig/9 fráköst/3 stolnir boltar, Jóhanna Rún Styrmisdóttir 2 stig/3 varin skot, Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir 2 stig, Perla Jóhannsdóttir 2 stig/3 stolnir boltar, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 2 stig.
Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bjarni Antonsson