spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaReglur um erlenda leikmenn í þeim deildum sem íslenskir landsliðsmenn spila

Reglur um erlenda leikmenn í þeim deildum sem íslenskir landsliðsmenn spila

Nú um helgina verður haldið ársþing KKÍ þar sem kosið verður um breytingu á reglu um erlenda leikmenn í efstu deildum karla og kvenna. Eru það höfuðborgarsvæðis-félögin Valur, Stjarnan, KR og Haukar sem leggja tillöguna fram.

Þjóðernistillaga höfuðborgarfélaganna yrði að hörðustu takmörkunum Norðurlandanna í leikmannamálum

Keflavík mun hafna þjóðernistillögu höfuborgarfélaganna “Fyrst og fremst þurfa lið að horfa í sitt eigið starf”

Ný tillaga höfuðborgarfélaganna leggur til litla breytingu á „gömlu“ 4+1 reglunni, eða að í stað þess að fjórir íslenskir leikmenn þurfi að vera á vellinum, verði þeir nú aðeins þrír. Tillaga sem, ef samþykkt, mun óumdeilanlega mismuna leikmönnum eftir þjóðerni innan evrópska efnahagssvæðissins líkt og 4+1 gerði á sínum tíma og ekki samræmast kröfu um frjálst flæði vinnuafls.

Karfan hefur fyrir því heimildir að mögulega verði tillögunni breytt, þar sem að í nýrri breytingatillögu verði gert ráð fyrir tveimur íslenskum leikmönnum á vellinum á öllum tímum, en sú breyting myndi, líkt og upphafleg tillaga, óumdeilanlega mismuna leikmönnum eftir þjóðerni innan evrópska efnahagssvæðissins og heldur ekki samræmast kröfu um frjálst flæði vinnuafls.

Áhugavert er að líta til nokkurra þeirra deilda sem íslenskir landsliðsmenn hafa leikið í á meginlandi Evrópu á síðustu árum og velta fyrir sér hvort þessir leikmenn hefðu fengið þau tækifæri sem þeir fengu ef deildir þeirra hefðu verið með þá reglu um mismunun vegna þjóðernis sem höfuðborgarfélögin leggja til á þingi helgarinnar.

Martin Hermannsson ACB Valencia 2020-
Haukur Helgi Pálsson ACB Baskonia/Manresa 2014-15 og Morabanc Andorra 2020-
Tryggvi Snær Hlinason ACB Valencia 2017-19 / Casademont Zaragoza 2019-

Reglurnar í efstu deild á Spáni:

Fjórir uppaldir (innan Spánar) leikmenn verða að vera á skýrslu hverju sinni. Tveir leikmenn utan EU eru leyfðir. Engar takmarkanir á EU leikmönnum og engar takmarkanir á hverjir eigi að vera inni á hverju sinni.

Martin Hermannsson Alba Berlin 2018-2020
Jón Axel Guðmundsson BBL Fraport Skyliners 2020-

Reglurnar í efstu deild á Þýskalandi:

Sex erlendir leikmenn eru leyfðir á hverja skýrslu. Engar takmarkanir á hverjir skulu vera inni á vellinum.

Martin Hermannsson Pro A CCRB 2017-18 og Haukur Helgi Pálsson Pro A Cholet 2017-18 / Nanterre 2018-19

Reglurnar í efstu deild á Frakklandi:

Sex erlendir leikmenn eru leyfðir á hverja skýrslu. Engar takmarkanir á hverjir skulu vera inni á vellinum.

Sara Rún Hinriksdóttir BBL Leicester Riders 2019-21

Reglurnar í efstu deild á Englandi:

Þrír leikmenn utan evrópska efnahagssvæðissins leyfðir og engar takmarkanir á evrópskum leikmönnum. Engar takmarkanir á hverjir skulu vera inni á vellinum.

Elvar Már Friðriksson LKL Siauliai 2020-

Reglurnar í efstu deild á Litháen:

Sex erlendir leikmenn eru leyfðir á hverja skýrslu, en aðeins má nota fimm í hverjum leik. Engar takmarkanir á hverjir skulu vera inni á vellinum.

Haukur Helgi Pálsson VTB Kazan 2019-20

Reglurnar í efstu deild á Rússlandi:

Sex uppaldir (innan Rússlands) þurfa að vera á skýrslu hverju sinni. Engar takmarkanir á hverjir skulu vera inni á vellinum.

Elvar Már Friðriksson SBL Borås Basket 2019-20

Reglurnar í efstu deild á Svíþjóð:

Fjórir erlendir leikmenn leyfðir á skýrslu. Engar takmarkanir um hverjir skulu vera inni á vellinum.

Listinn er að sjálfsögðu ekki tæmandi. Íslenskir leikmenn leika fyrir lið í deildum á mörgum stigum. Sem dæmi eru Arnar Björnsson (Real Canoe) og Kári Jónsson (Girona) í Leb Oro deildinni á Spáni og þá voru Hjálmar Stefánsson og Tómas Þórður Hilmarsson á mála hjá Aquimisa Carbajosa í Leb Plata deildinni í sama landi þangað til nú í febrúar.

Þá hefur landsliðið einnig verið með leikmenn sem í gegnum tíðina hafa leikið í deildum á Ítalíu, í Grikklandi, Belgíu, Tékklandi, Austurríki, svo einhverjar séu nefndar. Reglur allra þessara deilda eiga það sameiginlegt með þeim sem taldar eru upp hér fyrir ofan, að vera hvergi nálægt því sem lagt verður til á þingi helgarinnar. Hvort sem um er að ræða þrjá íslenska leikmenn á vellinum, eða tvo íslenska leikmenn á vellinum öllum stundum.

Fréttir
- Auglýsing -