spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaRagnheiður til Stjörnunnar - Bríet verður áfram

Ragnheiður til Stjörnunnar – Bríet verður áfram

Stjarnan samdi við fjóra leikmenn í kvöld um að leika með liðinu á komandi tímabili í Dominos deild kvenna. Þrír koma til liðsins en fjórði leikmaðurinn endurnýjaði samning sinn. 
 
Ragnheiður Benónýsdóttir er gengin til liðs við Stjörnuna en hún kemur frá Val. Á síðasta tímabili var hún með fjögur stig og fjögur fráköst að meðaltali í leik en hún kom mikið af bekknum og átti mikilvægar mínútur.
 
Ragnheiður hefur einnig leikið eitt tímabil með Skallagrím og endurnýjar því kynni sín við Auði Írisi, Jóhönnu Björk og Sólrúnu sem einnig gengu til liðs við Stjörnuna frá Borgnesingum í sumar. Ragnheiður á að baki fjóra landsleiki og er því góður liðsstyrkur í Garðabæinn.
 
Alexandra Eva Sverrisdóttir er 17 ára bakvörður sem kemur frá Njarðvík. Hún hefur leikið stórt hlutverk í yngri landsliðum Íslands síðustu ár, í fyrra með U16 en á þessu ári með U18 landsliðinu. Hún á nokkra leiki að baki með Njarðvík í efstu deild en fær nú tækifæri í sterku liði Stjörnunnar. 
 
Vigdís María Þórhallsdóttir er einnig 17 ára og kemur frá Grindavík. Hún hefur verið í U16 landsliði Íslands. 
 
Þá endurnýjaði Bríet Sif Hinriksdóttir samning sinn við Stjörnuna en hún er þar með að fara inní sitt þríðja tímabil með Garðabæjarliðinu. Hún átti frábært tímabil í fyrra fyrir Stjörnuna þar sem hún var með 13 stig og fjögur fráköst að meðaltali í leik. Þá var hún með 34% skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna. Bríet er lykilmaður í liði Stjörnunnar og því gríðarlegur fengur að halda henni í bláu. 
 

Stjarnan ætlar sér greinilega stóra hluti á komandi leiktíð en liðið bætti við sig þremur leikmönnum fyrir stuttu í þeim Jóhönnu Björk Sveinsdóttur, Auði Írisi Ólafsdóttur og Sólrúnu Sæmundsdóttur. Liðið hefur hinsvegar misst Bryndísi Hönnu til Blika. Fyrr í dag var einnig staðfest að liðið hafi samið við ítalann Florenciu Palacios um að leika með liðinu auk þess sem ljóst er að Danielle Rodriquez verður áfram hjá Stjörnunni. 

 

Fréttir
- Auglýsing -