Hvergerðingar ætla sér stóra hluti á næstu leiktíð í 1. deild karla en liðið er þessa dagana að safna liði. Fyrr í dag var tilkynnt að Ragnar Jósef Ragnarsson hefði gengið til liðs við félagið. Ragnar lék með Hamri seini hluta síðasta tímabils og þekkir því vel til.
Í tilkynningu Hamars segir: „Ragnar var á venslasamning frá Breiðablik eftir áramótin og skilaði að meðaltali 13.5 stigum á um 24 mínútum. “
„Ragnar hefur nú samið við Hamar um að ganga til liðs við félagið og ríkir að sögn þjálfara Hvergerðinga, Máté Dalmay mjög mikil ánægja í herbúðum félagsins.“
Hamar hefur ekki setið auðum höndum frá því að tímabilinu lauk en liðið hefur einnig samið við þá Pálma Geir Jónsson og Bjarna Rúnar Lárusson. Auk þess hafa hvergerðingar endurnýjað samninga við Everage Richardsson.