spot_img
HomeFréttirRagna Margrét: Má spila en þarf að fara varlega

Ragna Margrét: Má spila en þarf að fara varlega

Ísland mætir Portúgal annað kvöld í þriðja leik sínum í forkeppni EuroBasket 2017. Íslenska liðið æfði tvisvar sinnum í Portúgal í dag en á síðari æfingunni fór lítið fyrir Rögnu Margréti Brynjarsdóttur sem þarf að fara vel með sig vegna liðþófameiðsla.

„Liðbandið er ekki rifið en hugsanlega er það tognað,“ sagði Ragna Margrét í samtali við Karfan.is og bætti við að hún mætti vissulega spila en þyrfti að fara varlega. „Á meðan ég finn ekki til og er ekki bólgin þá er þetta í góðu lagi,“ sagði Ragna Margrét sem fór í myndatöku vegna meiðslanna fyrir viku en þá kom í ljós að líklega væri bara um þessa tognun að ræða. 

 

Hvíld og meðferð hjá sjúkraþjálfara eru því framundan hjá Rögnu Margréti að loknu tímabilinu en hún sagði að íslenska liðið ætti að vera nokkuð vel undirbúið fyrir leikinn annað kvöld.

 

„Við höfum aðeins séð til portúgalska liðsins og höfum farið þokkalega í gegnum þeirra leik og ættum því að vera nokkuð vel tilbúnar. Þær eru með minni leikmenn en Slóvakía og Ungverjaland,“ sagði Ragna Margrét en íslenska liðið rétt eins og það portúgalska hafa bæði tapað fyrstu tveimur leikjunum sínum í forkeppninni og því ljóst að eftir annað kvöld verður aðeins eitt lið í riðlinum án sigurs. 

 

Portúgal og Ísland mætast annað kvöld ytra kl. 18.30 en sami tími er á Íslandi og í Portúgal um þessar mundir. 

Mynd/ Jón Björn – Ragna Margrét á fyrri æfingu íslenska liðsins í Portúgal í dag. 

Fréttir
- Auglýsing -