Hamar vann í kvöld óvæntan sigur á KR í Lengjubikar karla en Hamar leikur í 1. deild og KR í Domino´s deildinni eins og kunnugt er. Ragnar Á. Nathanaelsson sagði í snörpu spjalli við Karfan.is að Hamarsmenn hefðu einfaldlega verið töffarar í kvöld.
,,Já við erum að sýna úrvalsdeildartakta, markmiðið er vissulega að fara upp úr 1. deild. Við héldum í við Snæfell á dögunum og vinnum núna KR. Þetta er bara veisla en auðvitað ætla menn að halda sér á jörðinni yfir þessu. Í fyrra þá lendum við í 2. sæti í deildarkeppninni í 1. deild og gerum upp á bak í úrslitakeppninni. Markmiðið núna er að vinna deildina og fara beint upp. Nú er bara að halda sér á jörðinni og mæta sterkir gegn Þór á föstudag,” sagði Ragnar sem talaði um góða byrjun Hamarsmanna í kvöld.
,,Hollis var rosalega góður, við byrjuðum vel og vorum bara ekkert hræddir. Við mættum með alvöru körfubolta og entumst bara betur en KR. Þó Billi (Brynjar Þór Björnsson) hafi sett þrjá þrista í röð þá létum við það ekki á okkur fá, við vorum bara töffarar.”
Mynd/ Úr safni