spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaPúlsinn var tekinn á Kristófer Acox eftir leik "Meira púður sett í...

Púlsinn var tekinn á Kristófer Acox eftir leik “Meira púður sett í þetta í úrslitakeppninni”

Valur lagði Stjörnuna í kvöld í fyrsta leik einvígis liðanna í átta liða úrslitum Subway deildar karla. Valur er því komið með 1-0 forystu í einvíginu, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sig í undanúrslitin.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við framherja Vals Kristófer Acox eftir leik í Origo Höllinni.

Loksins vinnur Valur heima í úrslitakeppninni!

Jájá!

Langt síðan það gerðist…en góður sigur, 1-0, en nóg eftir auðvitað…

Auðvitað gott að vera kominn yfir í seríunni og við viljum náttúrulega verja heimavöllinn, við höfum gert það mjög vel í allan vetur. Við höfum bara tapað tveimur leikjum heima í vetur, síðasta tap hér var einmitt á móti Stjörnunni í deildinni. Náttúrulega töluvert meira undir í þessum leik – ég er bara mjög ánægður hvernig við mættum til leiks og vorum vel tengdir meiri hlutann af leiknum. Þeir eru með frábæran skorara í Turner og erfitt að eiga við hann, en við gerðum ágætlega  í seinni hálfleik í að hægja á honum.

Það sem bögglast svolítið í hausnum á mér er að tölfræðin er nokkuð jöfn að flestu leyti nema að þið skjótið umtalsvert betur þrátt fyrir umtalaða óskilvirkni og allt það….og einnig fannst mér vörnin líka meira og minna góð hjá ykkur en samt endar þetta bara í 5 stiga sigri…?

Já…það er kannski meira púður sett í þetta í úrslitakeppninni og ég er alveg ánægður með vörnina heilt yfir…mér fannst við vera að ná nokkrum góðum stoppum í röð og við komumst oftar en einu sinni í tveggja stafa tölu fram úr þeim…en þetta er náttúrulega bara leikur áhlaupa og við vitum að þú getur aldrei farið að hægja á þér þó þú sért kominn 10-13 stigum yfir því þá eru þeir fljótir að refsa. Við hittum vissulega líka á frábæran skotleik, Kári og Jacob voru frábærir í dag Pablo skaut vel og við fengum mikið í púkkið frá öllum sóknarlega. En ég tek undir það að mér fannst við einhvern veginn alltaf geta unnið þennan leik með 10+ stigum en þeir gefast náttúrulega ekki upp og sigur er bara sigur í þessu og það er það eina sem skiptir máli.

Vissulega. Þrátt fyrir að þið skjótið vel í þessum leik og spilið fína vörn og allt það hér á heimavelli vinnið þið samt bara með 5…svo það má ljóst vera að það verður ekkert djók að ætla að mæta í Garðabæinn og komast í 2-0?

Neinei alls ekki. Þeir setja á sig mikla pressu á sínum heimavelli. Það er kannski ein ástæðan fyrir því að þeir hanga í þessu eru sóknarfráköstin, það er mjög stór partur af þeirra leik að fara í sóknarfráköstin og fá ,,second-chance“ stig, þeir eru duglegir að refsa með því. Það var kannski það eina…við spilum flotta vörn í kannski 20 sekúndur og svo kemur skotið en þeir ná sóknarfrákastinu og ná að refsa…þannig ef við náum að laga það fyrir næsta leik og höldum áfram að spila þessa vörn þá held ég að við séum bara í ágætis málum.

Einmitt, þetta lítur bara vel út fyrir ykkur…þetta getur auðvitað verið fljótt að breytast en Valsmenn eru væntanlega bara glaðir?

Að sjálfsögðu, við tökum þessum sigri auðvitað með bros á vör, við vitum að það er stutt í næsta leik og þetta er langt frá því að vera búið. En við megum vera ánægðir með þennan sigur og fara fullir sjálfstrausts í næsta leik.

Sagði glaðreifur Kristófer.

Fréttir
- Auglýsing -