spot_img
HomeFréttirPúlsinn í Domino´s deild kvenna

Púlsinn í Domino´s deild kvenna

Tímabilið er handan við hornið og kvennakeppni Lengjubikarsins hefst næsta miðvikudag með þremur leikjum. Karfan.is tók hús á þjálfurum úrvalsdeildarliðanna og fékk aðeins að forvitnast um gang mála. Hér að neðan fara svör allra þjálfaranna í Domino´s deild kvenna og tökum við þau í töfluröð KKÍ eins og hún er birt núna.
 
 
 
Hamar – þjálfari Hallgrímur Brynjólfsson
 
Komnar/Farnar
Salbjörg Ragna Sævarsdóttir komin frá Njarðvík, Jóhanna Herdís Sævarsdóttir komin frá Laugdælum og Þórunn Björnsdóttir frá Val. Svo hefur Marín Laufey Davíðsdóttir skipt yfir í Keflavík, Fanney Lind Guðmundsdóttir skipti yfir í Val, Dagný Lísa Davíðsdóttir hélt til USA í skóla og Rannveig Reynisdóttir er hætt
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Undirbúningurinn hefur verið góður seinustu tvær vikurnar. Nú eru allar stelpurnar komnar til byggða og við höldum okkar striki áfram.
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Mikil spenna ríkir í herbúðum Hamars fyrir komandi tímabil. Miklar breytingar hafa verið á hópnum frá seinasta tímabil sem opnar dyrnar fyrir aðrar efnilegar og mjög góðar stelpur. Hamar setur stefnuna hátt eins og öll önnur tímabil.
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Deildin verður virkilega jöfn í vetur og hef ég trú á að þetta ráðist í seinustu umferð með hvernig röðunin verður í úrslitakeppninni . En ef bara litið er á pappírana þá eru þetta Grindavík, Keflavík, Snæfell og Valur sem verða sterkustu liðin.
 
 
 
Snæfell – Ingi Þór Steinþórsson
 
Komnar/Farnar
 
Farnar: 
Hildur Björg Kjartansdóttir til UTPA
Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir til Danmerkur
Eva Margrét Kristjánsdóttir til KFÍ
Edda Bára Árnadóttir í Borgarfjörðinn
Chynna Brown
 
Komnar: 
Gunnhildur Gunnarsdóttir Haukum
María Björnsdóttir Val
Kristen McCarthy USA
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Við höfum farið rólega af stað, verið fámennar en þetta er allt að rúlla núna og við erum búnar að fá kanann til okkar og við verðum í fínum málum með flottar dömur sem eru samheldnar.
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Við erum með báða fætur á jörðinni eftir frábæran vetur í fyrra ætlum við að sjá hvernig okkar breytta lið kemur til leiks, það er hugur í öllum fyrir veturinn en við erum mjög raunsæ.
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Keflavík og Grindavík ef ég þyrfti að giska á einhver lið, annars hef ég ekkert séð þessi lið og get lítið dæmt um þau fyrr en eftir Lengjubikarinn.
 
 
Breiðablik – Andri Þór Kristinsson

Komnar/Farnar
 
Farnar: 
Helga Hrund Friðriksdóttir (Embry-Tiddle Eagles, USA)
Efemía Rún Sigurbjörnsdóttir (barneignarleyfi)
Kristín Óladóttir (hætt/hlé)
 
Komnar:
Jóhanna Björk Sveinsdóttir (Haukum)
Kristbjörg Pálsdóttir (KR)
Rut Herner Konráðsdóttir (Val)
Unnur Lára Ásgeirsdóttir (Val)
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Liðið hefur æft vel í allt sumar. 5 x 3 tíma í maí og júni en 5 x 2 tíma í júlí og ágúst. Áherslan hefur verið á styrktar- og ástandsþjálfun eins eðlilegt er á þessum tíma árs en körfuboltaæfingarnar fá nú stærra vægi nú þegar leiktímabilið er að hefjast. Við höfum leikið sex æfingaleiki núna í ágúst. Unnið einn en tapað fimm. Þrátt fyrir það myndi ég segja að sumarið hafi verið frábært hjá okkur og eitt það besta sem ég hef tekið þátt í.
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Ég er gríðarlega stolltur af stelpunum mínum og fólkinu hérna í kringum liðið. Þetta hafa verið frábær þrjú ár hérna í Breiðablik og Domino´s sætið er bara brot af þeim árangri sem við höfum náð. Hér eru allir spenntir fyrir komandi leiktímabili og tilhlökkunin er mikil. Við erum að fara mæta sterkari andstæðingum og þrátt fyrir að það séu margir flottir leikmenn og góðir þjálfarar í 1. deildinni þá verða ákveðin viðbrigði fyrir okkur að leika í Domino´s. Leikjaálagið er talsvert fyrir áhugalið og við erum núna á næstu 7 mánuðum að fara spila fleiri leiki en við höfum gert frá því að liðið var endurvakið fyrir þremur árum, samanlagt. Við erum samt með hóp sem vex við hvert verkefni og stelpur sem hafa verið eins og eldflaugar undanfarin ár. Leikmenn liðsins setja liðinu árangursmarkmið fyrir hverja umferð en heildarmarkmið liðsins voru að fara alla leið með þetta og koma okkur í topp 4 enda úrslitakeppnin það sem allir vilja taka þátt í. Markmið mín og okkar þjálfaranna taka ekki til niðurstöðu leikjanna. Ætli við höldum þeim ekki útaf fyrir okkur soldið lengur.
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Mér sýnist deildin vera nokkuð sterk. Landsliðin hafa æft vel í sumar og fengið fín verkefni og það hefur vanalega skilað sér í hressilegri deild. Valur er hugsanlega með bestu starting 5 og svo flotta yngri leikmenn á bekknum. Sú blanda hefur oft verið sterk. Keflavík fer langt með unglingaflokkinn sinn. Getur verið erfitt að vera með ungan hóp en þessar stelpur eru engir byrjendur samt og þær eiga eftir að standa sig vel. Grindavík er sennilega með besta leikmannahópinn og verða í toppmálum. Snæfell eru Íslandsmeistarar og þá skal aldrei vanmeta. Flottur hópur sem nær langt ef ekki alla leið ef þær halda heilsunni. Haukar með Lele í triangle. Það eitt og sér verður vandamál en Haukar eru vel mannað lið í öllum stöðum.
 
 
 
Valur – Ágúst Björgvinsson

Komnar/Farnar
 
Farnar
Þórunn Bjarnadóttir Hamar
María Björnsdóttir Snæfell
Hallveig Jónsdóttir Keflavík
 
Komnar
Fanney Lind Guðmundsdóttir Hamar
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Lyftingar og styrktarþjálfun hófust í maí með Guðjóni Ingólfssyni sem er nýr styrktarþjálfari hjá okkur. Þeir leikmenn sem hafa nýtt sér það vel hafa tekið miklum framförum. Hefðbundnar liðsæfingar hófust þó seinna en undanfarin ár, liðið er í fínu standi miðað við lítinn liðsundirbúining.
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Væntingarnar eru að fara alla leið og lyfta þeim stóra. Við höfum verið hársbreidd frá þessu síðust ár. Dottið út í oddaleik fyrir liðinu sem hefur svo unnið þetta nokkuð öruglega.
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Töluverðar breytingar hafa orðið á kvennadeildinni, nokkuð miklar breytingar eru á flestum liðum, Grindavík og Keflavík að bæta við sig leikmönnum á meðan flest önnur lið eru að missa leikmenn.
 
 
KR – Finnur Jónsson

Komnar/Farnar
Sigrún Ámunda í atvinnumennsku í Svíþjóð, Rannveig Ólafs er meidd og verður líklega ekkert með, Kristbjörg Páls er farin í Breiðablik. Við erum búnir að fá Anítu Viðars úr Keflavík og Þórkötlu Þórarins frá Skallagrím.
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Undirbúningur hefur bara gengið bærilega þakka þer fyrir og leikmenn hafa verið duglegar að æfa.
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Nokkuð erfitt að segja til um væntingar liðsins á þessum tímapunkti þar sem að ég hef ekkert séð til hinna liðanna. Við erum með mjög ungt lið og það var vissulega gríðarleg blóðtaka að missa Sigrúnu Ámunda í atvinnumennskuna en hún er mjög sterkur leikmaður. En ég á fullt af flottum stelpum sem að ég er sannfærður um að stígi upp og láti ljós sitt skína í vetur. Við förum bara á fullum krafti í alla leiki til þess að vinna að sjálfsögðu.
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Eins og ég sagði þá hef ég ekkert séð til hinna liðana en veit nú samt nokkurn veginn hvaða leikmenn eru í hvaða liðum. En ég reikna með að deildin verði nokkuð jöfn og ég held að þetta verði allt í kross, sigrar hingað og þangað og það verður ekkert sem telst vera óvænt. En hver sagði svosem að ég væri mikill spámaður?
 
 
 
Keflavík – Sigurður Ingimundarson
 
Komnar/Farnar
Komnar eru þær Marín Laufey Davíðsdóttir frá Hamri og Hallveig Jónsdóttir frá Val.
Farnar eru Aníta Viðarsdóttir, Telma Lind og Katrín. Einnig verður Bryndís Guðmundsdóttir í fríi frá körfubolta þetta tímabilið.
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Undirbúningur hefur gengið vel og hefur liðið æft saman síðan í júní og síðan verður haldið í æfingabúðir á Spáni, þannig að það er ekki spurning að þær mæta tilbúnar.
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Tímabilið verður á efa skemmtilegt og ánægjulegt fyrir liðið. Liðið er ungt en hefur áhuga á að standa sig vel og þær eru vissar að þær geti blandað sér í baráttuna um titlana af alvöru þetta árið.
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Það eru fullt að góðum liðum í deildinn , flest hafa þau tekið breytingum frá því í fyrra. En það er klárt að Snæfell, Valur , Haukar og Grindavík eru með mjög góð lið.
 
 
Haukar – Ívar Ásgrímsson
 
Komnar/Farnar
Það eru miklar breytingar í okkar hópi. Við höfum misst 5 lykilmenn frá því í fyrra og munum spila með mjög ungt lið á komandi tímabili.
Farnar: Íris Sverrisdóttir – leyfi
Margrét Rósa Hálfdanardóttir – USA
Lovísa Björt Henningsdóttir – USA
Gunnhildur Gunnarsdóttir – Snæfell
Jóhanna Björk Sveinsdóttir – Breiðablik
 
Komnar: Rakel Rós Ágústsdóttir – Þór Ak.
Ruth Gutjahr – Austurríki
 
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Við vorum bara að fá fullt lið á æfingar núna í síðustu viku þannig að hann hefur kannski ekki verið alveg eins og maður hefði kosið. Við erum samt með stelpur sem hafa spilað lengi saman og þekkja hvora aðra nokkuð vel þannig að ég held að eftir fyrirtækjabikarinn ættum við að vera komin í þokkalegt stand. Við erum eins og áður er sagt með gríðarlega ungt en hæfileikaríkt lið og kannski erum við að henda þessum stelpum nokkuð fljótt í djúpu laugina.
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Haukar hafa síðustu ár verið gríðarlega sigursælt lið og auðvitað viljum við halda áfram að berjast á toppnum, en við áttum okkur á því að þetta unga lið þarf tíma. Við erum með sama útlending sem er styrkur og það er þekkt stærð þannig að við erum þar með reynslumikinn og frábæran leikmann sem á eftir að hjálpa þessum ungu stelpum mikið. Lele er vön því að spila með ungu liði sem hún gerði seinna árið með Njarðvík.
Okkar markmið er að komast í úrslitakeppni og það er mjög krefjandi en jafnframt raunhæft markmið að mínu mati.
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Að mínu mati eru þrjú lið sterkust, Valur, Keflavík og Grindavík. Ég tel svo að við og Snæfell munum berjast um fjórða sætið. Það ætti að vera barátta um öll sæti og því gæti þetta orðið skemmtilegt og spennandi mót.
 
 
 
 
Grindavík – Sverrir Þór Sverrisson

Komnar/Farnar

Komnar
Ásdís Vala Freysdóttir
Guðlaug Björt Júlíusdóttir
Petrúnella Skúladóttir
Rachel Tecca frá USA
 
Farnar
Helga Hallgrímsdóttir
Marín Karlsdóttir
Harpa Hallgrímsdóttir
Crystal smith
 
Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið upp á síðkastið?
Stelpurnar hafa æft vel í sumar, voru í styrktarþjálfun í allt sumar og svo fór allt á fullt í ágúst.
 
Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Við erum með góðan hóp af öflugum stelpum og teljum okkur geta náð góðum árangri í vetur
 
Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Það hafa verið miklar breytingar á liðunum í deildinni þannig að ég treysti mér ekki til að nefna hvaða lið verði sterkust i vetur. Þetta kemur bara i ljós.
 
 
 
Mynd/ Snæfell er ríkjandi Íslandsmeistari 
Fréttir
- Auglýsing -