Fimm leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt þar sem Portland Trail Blazers stöðvuðu sjö leikja sigurgöngu Memphis Grizzlies með 97-84 sigri. Þá hafði LeBron James betur með Miami Heat þegar gamla liðið hans Cleveland Cavaliers kom í heimsókn suður á Flórídaskaga.
Portland 97-84 Memphis
LaMarcus Aldridge fór fyrir Portland með 23 stig og 6 fráköst og Marcus Camby var betri en enginn í teignum með 22 fráköst og 3 stig. O.J. Mayo var svo stigahæstur í liði Memphis með 20 stig af bekknum.
Miami 92-85 Cleveland
Chris Bosh fór mikinn í liði Miami með 35 stig og 7 fráköst og LeBron James bætti við 18 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum. Nýliðinn Kyrie Irving var stigahæstur í liði Cleveland með 17 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar.
Önnur úrslit næturinnar
Charlotte 78-111 New York
Indiana 83-102 Orlando
Phoenix 96-99 Toronto