spot_img
HomeFréttirPlanið að komast út núna

Planið að komast út núna

17:10
{mosimage}

(Haukur Helgi Pálsson)

Einn frambærilegasti körfuknattleiksmaður Íslands um þessar mundir hyggur á nám við Mont Verde Academy í Orlando í Bandaríkjunum næsta vetur. Haukur Helgi Pálsson hefur vakið athygli víða fyrir vasklega framgöngu sína á parketinu og hafa mörg stórlið í Evrópu sýnt honum áhuga en Haukur lítur Vestur um haf og á von á því að fá svar frá Mont Verde skólanum á næstu vikum. Þungt fyrir nýliða Fjölni í úrvalsdeild að hafa ekki Hauk í sínum röðum en hann fetar nú í fótspor bræðra sinna þeirra Magnúsar og Tryggva Pálssona sem einnig fóru til Bandaríkjanna í High School.

,,Ég er búinn að senda út verkefni fyrir skólann, skrifa einhverjar tvær ritgerðir og fleira svo vonandi kemur þetta í ljós á næstunni hvað verður. Mér sýnist þetta vera sterkur körfuboltaskóli og heyrði gott af þessum skóla hjá þjálfara sem ég kynntist í æfingabúðum í Bandaríkjunum,“ sagði Haukur sem gerði 10,0 stig, tók 4,3 fráköst, gaf 2,5 stoðsendingar og stal 1,8 boltum að meðaltali í leik með Fjölni í 1. deildinni á síðustu leiktíð.

,,Það er planið að komast út núna en annars er það bara Fjölnir eða eitthvert annað út ef þetta gengur ekki með Mont Verde. Ég er bara að einbeita mér að þessu,“ sagði Haukur sem kæmi inn sem senior nemandi (nemandi á elsta ári) í Mont Verde.

,,Ég ákvað að fara til Bandaríkjanna þegar ég var 11 ára gamall þegar Magnús elsti bróðir minn fór fyrst út. Svo fór Tryggvi bróðir minn líka svona út í High School og þá var ég staðráðinn í að gera slíkt hið sama,“ sagði Haukur en honum hefði líka boðist nám hjá sterkum Evrópuliðum.

,,Mín ákvörðun var sú að það væri auðveldara að fara í nám í landi þar sem ég kann málið vel en vissulega var menntun í boði hjá þeim Evrópuliðum sem höfðu áhuga en Bandaríkin urðu fyrir valinu eftir ítarlega umhugsun,“ sagði Haukur sem nú bíður svara frá Mont Verde.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -