Pétur Ingvars var nokkuð brattur eftir leik miðað við vont tap gegn Stjörnunni.
Nú ef ég tekið nokkur viðtöl við þig eftir tapleiki og þau hafa verið eins – inntakið ágæt frammistaða en engin stig! Það sem er nýtt núna er að frammistaðan var bara alls ekki góð og alls engin stig fyrir ykkur!
Jáh..! Niðurstaðan sú sama – frammistaðan kannski ekki sú sama. En þetta er bara lið (Stjarnan) sem er á allt öðrum stað en við í öllu. Við erum að fá nýja menn og setja inn nýja hluti, við erum á hálfgerðu undirbúningstímabilinu á meðan þeir eru að undirbúa sig fyrir atlögu að Íslandsmeistaratitli. Þeir á heimavelli og vel peppaðir…svona er þetta bara. Það má kannski segja að við viljum vera á þeim stað sem þeir eru eftir svona fimm ár. Við erum bara ungir og erum að reyna að fóta okkur í efstu deild og þetta eru bara mínútur undir belti.
Það er enginn uppgjöf í þér?
Það er auðvitað aldrei gaman að tapa svona og mótlæti er aldrei gott en það eru tvær leiðir, annað hvort að gefast upp eða reyna að finna leiðir til þess að bæta sig. Ég er hérna enn og hlýt þá að taka seinni kostinn.
Er góður andi í liðinu þrátt fyrir allt?
Hann er alveg furðulega góður. Ég hef verið með lið þar sem menn hafa alveg verið búnir að gefast upp eftir 3-4 tapleiki. En það er mjög mikill baráttuvilji í mönnum og það er bara mjög jákvætt. En þetta er ekki hægt endalaust, með nýjum mannskap og aðeins meiri endurtekningum á æfingum sóknarlega og varnarlega þá bætum við okkur kannski eitthvað. Við vorum kannski svolítið fastir í þriðja gír, vorum að skipta niður í annan til að komast kannski í fjórða gír! Þetta tekur smá tíma en það er spurning hvort að tíminn sé að renna út.
Hvernig líst þér á nýju erlendu leikmennina svona hingað til?
Þeir, alveg eins og íslensku leikmennirnir, eru að gera nýja hluti – ég þekki þá ekki og þeir þekkja mig ekki. Þetta tekur smá tíma, við erum búnir að vera saman á æfingum í kannski 10 tíma samtals. Við fáum slatta af æfingum núna og vonandi verðum við örlítið betri í næsta leik og í leiknum þar á eftir verðum við kannski komnir á ansi gott ról.
Eitt að lokum – Arnór Hermanns hefur verið meiddur eða hvað?
Hann hefur bara verið veikur. Þetta er fyrsti dagurinn þar sem hann er orðinn góður. Hann byrjaði of snemma eftir veikindi og sló niður.
En hvað með Snorra Hrafnkels, hvað er að frétta af honum? Hann fékk höfuðhögg ekki satt?
Jú hann fékk höfuðhögg og heilahristing í þriðja skiptið. Ég á ekki von á því að hann verði meira með á þessu tímabili. Hans bati er í ágætis horfi en þá aðallega upp á það að takast á við daglegt líf frekar en að taka þátt í körfubolta.
Það er missir af honum, hann hafði verið að spila mjög vel…
Jájájá…klárlega…en svona eru bara íþróttir.