spot_img
HomeFréttirPétur snýr aftur - Tekur við Skallagrím

Pétur snýr aftur – Tekur við Skallagrím

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur ráðið Pétur Ingvarsson sem þjálfara meistaraflokks karla hjá félaginu. Gengið var frá samningi við Pétur í dag og er hann til tveggja ára. www.skessuhorn.is greinir frá.
 
Pétur er þekkt nafn í íslenskum körfubolta. Hann er borinn og barnfæddur Hafnfirðingur og hefur gert garðinn frægan á körfuboltavellinum bæði sem leikmaður og þjálfari. Hann var lykilleikmaður í liði Hauka um langt árabil í úrvalsdeild auk þess sem hann lék 27 leiki fyrir A-landslið karla. Árið 1998 söðlaði Pétur um og gerðist spilandi þjálfari karlaliðs Hamars í Hveragerði. Pétur þjálfaði Hvergerðinga í níu ár og kom hann liðinu upp í úrvalsdeild og oftar en einu sinni í úrslitakeppni. Eftir árin hjá Hamri þjálfaði Pétur lið Ármenninga í 1. deild um stutt skeið uns hann tók við þjálfun Hauka árið 2008 sem hann kom svo upp í úrvalsdeild. Pétur þjálfaði Hauka fram til 2011.
 
Að sögn Kristins Ó. Sigmundssonar formanns Kkd. Skallagríms er mikil ánægja með ráðningu Péturs hjá stjórn deildarinnar. „Við bindum vonir við Pétur enda býr hann yfir töluverðri reynslu og þekkingu á körfubolta sem hann hefur öðlast bæði sem leikmaður og þjálfari á farsælum ferli,“ sagði Kristinn sem býður Pétur velkominn í Borgarnes.
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -