spot_img
HomeFréttirPétur Már á Jakann

Pétur Már á Jakann

Pétur Már Sigurðsson, fráfarandi þjálfari Stjörnunar í Úrvalsdeild kvenna og þjálfari U-20 landsliðs kvenna, hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla hjá 1. deildarliði Vestra.

Undanfarin þrjú tímabil hefur Pétur stýrt Stjörnunni við góðan orðstýr en undir hans stjórn fór félagið tvívegis í úrslitakeppnina ásamt því að fara alla leið í bikarúrslitin í ár þar sem liðið beið lægri hlut á móti Val. Þrátt fyrir góðan árangur þá dró stjórn Stjörnunnar liðið hins vegar úr Úrvalsdeildinni og skráði til leiks í 1. deildinni á komandi tímabili.

Pétur hóf þjálfaraferil sinn með Laugdælum í 2. deildinni haustið 2009 og stýrði liðinu upp um deild. Hann stýrði karla- og kvennaliðum KFÍ frá 2011 til 2013. Karlaliðinu kom hann upp í Úrvalsdeild á sínu fyrsta tímabili, eftir að hafa unnið 17 af 18 leikjum sínum í 1. deildinni og komist í 4 liða úrslit bikarkeppninnar. Liðið hélt svo sæti sínu í Úrvalsdeildinni undir hans stjórn árið eftir. Kvennalið KFÍ vann 22 af 31 leikjum í deild undir hans stjórn og er hann sigursælasti þjálfari kvennaliðsins frá upphafi.

Hann var aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins á árunum 2011 til 2014 og stýrði liðinu á Smáþjóðaleikunum árið 2013. Árin 2013-2015 stýrði hann kvennaliði Fjölnis og tímabilið 2015-2016 var hann aðstoðarþjálfari karlaliðs Stjörnunnar.

Á ferli sínum sem leikmaður kom Pétur víða við en lengstum lék hann með KFÍ og Skallagrím í Úrvalsdeildinni.

Fréttir
- Auglýsing -