16:21
{mosimage}
(Pétur Ingvarsson)
Hafnfirðingurinn Pétur Ingvarsson er nú að hefja sitt tíunda starfsár í röð sem þjálfari Hamars frá Hveragerði og þá er þetta níunda árið sem hann er með liðið í efstu deild. Pétur er einn leikjahæsti íslenski þjálfarinn frá upphafi sem hefur verið samfleytt með lið í efstu deild og hefur gengi liðsins verið æði rykkjótt en í fyrra léku Hvergerðingar til bikarúrslita gegn ÍR og máttu sætta sig við nauman ósigur. Hamar tekur á móti Tindastól í Hveragerði í 1. umferð Poweradebikarsins og tefla þar fram nýjum liðsmanni að nafni Raed Mostafa frá Þýskalandi.
Hinn stóri og stæðilegi Svavar Pálsson verður líkast til ekkert með Hamri fram að áramótum og því góð viðbót fyrir Hamar að fá hinn tveggja metra háa Mostafa til liðsins. Miðherjinn góðlegi George Byrd verður áfram í Hveragerði sem og bosmanleikmaðurinn Bojan. Í hópinn hefur bæst Viðar Hafsteinsson frá Hetti á Egilsstöðum en Eldur Ólafsson kvaddi og er nú á mála hjá Íslandsmeisturum KR.
,,Undirbúningurinn hjá okkur hefur gengið svona upp og ofan og við töpuðum öllum okkar leikjum í Valsmótinu en það kemur í ljós í kvöld hvernig þetta verður og hvar við þurfum að bæta okkur,” sagði Pétur í samtali við Karfan.is.
Þjálfunarstarf í íslenskum körfubolta eða í íslenskum íþróttum yfirleitt er að jafnaði ekki langlíft en Pétur hefur verið lífseigur í Hveragerði en áður en hann fór austur fyrir fjall þjálfaði hann kvennalið ÍS til tveggja ára. Nokkuð ber á því í dag að fyrrum leikmenn sem létu vel að sér kveða á parketinu séu að þjálfa í dag og sem dæmi má nefna Teit Örlygsson hjá Njarðvík, Friðrik Ragnarsson hjá Grindavík, Bárð Eyþórsson hjá Fjölni og Sigurð Ingimundarson hjá Keflavík svo einhverjir séu nefndir. Allir eiga þessir upptaldir það sameiginlegt að hafa skarað fram úr sem leikmenn og sumir þeirra sem þjálfarar en enginn þeirra hefur verið samfleytt jafn lengi að og Pétur Ingvarsson og í ár bætist enn eitt tímabilið í safnið.
Mynd: [email protected]