Grindvíkingar hafa fengið Ryan Pettinella til liðs við sig en kappinn varð Íslandsmeistari með félaginu á síðustu leiktíð. Pettinella er tröll að burðum og teigur þeirra Grindvíkinga orðinn ansi þéttur. Kappinn er væntanlegur til landsins þann 2. janúar n.k. en frá þessu er greint á umfg.is. Erlendir leikmenn Grindavíkurliðsins eru því orðnir þrír talsins því fyrir eru þeir Sammy Zeglinski og Aaron Broussard.
Í frétt þeirra Grindvíkinga segir ennfremur:
Hinn frábæri Ryan Pettinella hefur ekki fengið starf það sem af er vetrar og er ennþá á lausu, ákvað stjórn kkd.umfg með stuðningi helstu styrktaraðilanna, Stakkavíkur, Vísis og Þorbjarnar, að ganga til samninga við kappann og í dag kom svar frá umboðsmanninum og er hann væntanlegur á skerið 2.janúar.
Þetta eru auðvitað gríðarlega góðar fréttir fyrir okkur en ekki er Ryan bara frábær körfuknattleiksmaður heldur félagi góður.
Með tilkomu hans og Daníels er ljóst að Sverrir er með verulega skemmtilegt vandamál við að glíma en baráttan um mínútur verður geysilega hörð og ljóst að Grindavík mun gera harða atlögu að þeim titlum sem ennþá eru í boði.