Valur lagði Stjörnuna fyrr í kvöld í 5. umferð Subway deildar karla, 79-91.
Karfan spjallaði við Pavel Ermolinskij leikmann Vals eftir leik í MGH
Fínn sigur, og kannski styttri eða færri kaflar þar sem þið virðist hreinlega ekki geta búið til skot, það er eitthvað sem maður hefur stundum séð hingað til, en þetta virðist vera að smyrjast svolítið hjá ykkur?
Það var skárra í dag, svona aðeins meiri hraði í þessu, en það er enn verk að vinna. Við getum ekki horft of mikið á úrslitin, við verðum að leggja kalt mat á hlutina eftir hvern leik hvort sem það er sigur eða tap. Í dag gerum við það eftir bara mjög góðan sigur á erfiðum útivelli og það er bara geggjað en við þurfum að átta okkur á því að það er mikið eftir og þau lið sem ná að bæta sig hvað mest yfir tímabilið verða í góðum séns þegar upp er staðið. Við þurfum að vera með augun opin.
Nákvæmlega, það eru mörg góð lið í deildinni og ekki svo langt á milli þeirra og nú er keppni í því að bæta sig og allt það…en þið eigið kannski inni eitt stykki bandarískan leikmann eða hvað…þú ert kannski ekki maðurinn til að svara því?
Já veistu ég bara þekki það ekki…nú er liðið bara eins og það er, bandarískur leikmaður mundi koma inn í sömu vandamál sem eru til staðar, það þarf að laga þau sama hvort það kemur leikmaður til viðbótar eða ekki.
Akkúrat. Mér finnst varnarleikurinn hjá ykkur bara hafa verið nokkuð góður, sérstaklega undir körfunni, andstæðingar ykkar eru ekkert mikið að raða á ykkur sniðskotum…?
Nei, við höfum verið að spila fína vörn, en í liði eins og okkar eins og það er samsett þá ættu fyrirsjáanleg vandamál sem birtast sóknarlega mögulega að koma til baka í vörninni…
…já…hæð og styrkur…
…hæð og styrkur og hraði og lengd og allt þetta…en það er það sama þar, við erum ekki búnir að ná einhverju þaki þar enn.
Neinei. En sóknarlega…kannski gæti kvikur gegnumbrotsleikmaður, mögulega bandarískur, sem er svolítið að sprengja varnir og svona…uppskrift sem svo sem allir vilja kannski fá… en það gæti e.t.v. leyst vandamálin að hluta til sóknarlega…? Eða er ég kannski bara að bulla?
Neinei…ég trúi því persónulega að það er alltaf hægt að finna leiðir til að gera hvað sem er með þann mannskap sem þú ert með. Það krefst bara vinnu, einbeitingar og vilja til þess, þú getur alveg sett 5 örvhenta leikmenn inn á völlinn sem geta ekki skotið en með réttum áherslum og lausnum á hlutum þá geturu alltaf komið mönnum í stöðu til að skora. Svarið fyrir mér er aldrei að hrúga inn leikmönnum til að reyna að leysa eitthvað með einstaklingshæfileikum.
Ég skil þig. Ég verð að fá að spyrja þig aðeins út í þig sjálfan í lokin, mér skilst að þú hafir nú ekkert verið viss um það að ætla að vera með í vetur…en þetta er svo skemmtilegt, það er væntanlega það sem hefur dregið þig af stað enn eina ferðina ef svo má segja…?
Jájá, ég hætti á hverju einasta ári! Þetta tekur svo mikið úr mér einhvern veginn, líkamlega og sérstaklega andlega, ég verð eitthvað svo uppgefinn eftir þetta og síðasta ár var náttúrulega eins og það var. Ég þurfti núna bara aðeins lengri tíma til að núllstilla mig aftur. Ég mun eflaust hætta eftir þetta tímabil líka…og einhvern tímann segi ég ekki aftur!
Já…þú ert svolítið eins og reykingarmaðurinn, hættir eftir hverja sígarettu og byrjar svo strax aftur!
Já, svoldið þannig!
Sagði Pavel…og undirritaður ætti að fara að tala meira við þennan meistara eftir leiki, viskan drýpur af hverju orði…